Bílaframleiðendur eru í auknum mæli farnir að horfa til tæknitröllanna í Kísildalnum til að átta sig á hvert bílaiðnaðurinn stefnir. Detroit, höfuðborg bílaiðnaðar í Bandaríkjunum, er yfirleitt iðandi af lífi í janúar, þegar hin árlega bílasýning í Detroit, Detroit Motor Show, er haldin.
Að þessu sinni er þó annar bragur á sýningunni en venjulega, því bílaframleiðendur keppast við að sýna fram á hvernig þeir muni takast á við breytta framtíðarsýn.
Ástæða þess að þeir líta frekar til vinnsluminnis en slagrýmis í bílum er sú að flestir greiningaraðilar eru sammála um að þeir verði að ná til yngri kynslóðarinnar, en samkvæmt skýrslu KPMG, sem BBC vitnar í, keyrir ungt fólk 23% minna en kynslóðin á undan gerði þegar hún var á sama aldri.
„Ef þú skoðar kauphegðun yngri kynslóða, þá horfir hún kannski að einhverju leyti á hvernig GPS-kerfið í bílnum virkar, en frekar en að keyra hefur fólk miklu meiri áhuga á að vera í sífelldu sambandi við vini sína,“ segir Gary Silberg, ráðgjafi hjá KPMG á sviði samgöngumála, í viðtali við BBC. „Sá bílaframleiðandi sem tekst að höfða til þeirra mun bera sigur úr býtum á markaðnum.“
Dr. Dieter Zetsche, stjórnarformaður Mercedes Benz, er ómyrkari í máli. „Bíll framtíðarinnar er snjallsími á hjólum.“
„Sjálfkeyrandi bílar verða til staðar í náinni framtíð,“ segir Zetsche. „Fyrir örfáum árum var þetta vísindaskáldskapur, en er að verða raunveruleiki.“ Hversu náinni framtíð? „Innan áratugar,“ segir Zetsche.
Aðeins um 10% bíla eru nú nettengd, en ráðgjafafyrirtækið Machina Research á von á að sú tala verði 90% árið 2020.
Stóra spurningin er hins vegar hver mun framleiða hugbúnaðinn sem tengir bílana við netið - bílaframleiðendur á borð við Mercedes Benz og General Motors, eða tæknitröllin í Kísildalnum í Kaliforníu; Apple eða Google, sem þegar horfa til bílaiðnaðarins.