Sjálfskjótandi flugritar í þotur Airbus

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur hafið viðræður við Flugöryggisstofnun Evr­ópu, EASA, um þá hugmynd að koma fyrir sérstökum flugritum í ofurþotunni A380 og nýrri A350 breiðþotu sem myndu skjótast frá flugvélinni þegar hún yrði fyrir höggi við að lenda á landi eða sjó. Slíkur búnaður hefur tíðkast í herflugvélum um skeið.

Umræða um sjálfskjótandi flugrita sem fljóta á sjó kom einnig upp eftir að illa gekk að finna flugrita frönsku A330 farþegaþotunnar sem fórst yfir Atlantshafi í júní 2009. Þær umræður leiddu hins vegar ekki til þess að farþegaþotur almennt hafi slíka flugrita.

Í ljósi nýlegra atburða í flugheiminum hefur umræðan skotið upp kollinum að nýju og er Airbus þar í fararbroddi. „Airbus vinnur með EASA og öðrum hagsmunaaðilum við að fá samþykkta slíka lausn fyrir farþegaþotur,“ sagði talsmaður Airbus við fjölmiðla í vikunni, án þess að tiltaka hvenær mögulega sjálfskjótandi flugritar gætu orðið staðalbúnaður í A380 og A350 farþegaþotum Airbus.

Talið er að sjálfskjótandi flugritar gætu, ef allt gengur eftir, orðið staðalbúnaður samkvæmt reglugerðum árið 2016 og yrði þá flugvélaframleiðendum skylt að koma slíkum búnaði fyrir í öllum farþegaþotum frá árinu 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert