Kaflaskil verða í íslenskri fjarskiptasögu 2. febrúar nk. en þá lýkur síðasta áfanga í uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi Vodafone og RÚV og slökkt verður á hliðræna dreifikerfinu sem þjónað hefur landsmönnum allt frá upphafi sjónvarpsútsendinga árið 1966.
Útsendingin verður þá alfarið á stafrænu dreifikerfi sem þýðir stórbætta þjónustu um allt land, að því er segir í tilkynningu frá RÚV.
Fram kemur, að stefnt hafi verið að þessum áfanga allt frá því að RÚV og Vodafone gerðu með sér samning um uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi 1. apríl 2013. Hann er sá sjötti og síðasti í uppbyggingu nýja kerfisins – og langsamlega sá stærsti. Þar með hætta hliðrænar útsendingar RÚV á höfuðborgarsvæðinu (bæði um VHF/UHF og á örbylgjudreifikerfinu) auk þess sem líka verður slökkt á hliðræna dreifikerfinu í Húnavatnssýslum, hluta Skagafjarðar, á Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum.
Jafnframt þessu er tekin í notkun ný útsendingartækni sem hentar til háskerpuútsendinga. Allir sendar hafa verið settir upp og háskerpuútsendingar eru hafnar á flestum svæðum. Um þessar mundir er unnið að því að opna á háskerpuútsendingar á þeim sendum sem eftir eru.
Nýja kerfið nær til yfir 99,9% allra heimila á landinu og með því stórbatna myndgæði í útsendingu. RÚV getur nú loks sent út til þjóðarinnar allrar á tveimur sjónvarpsrásum, RÚV og RÚV2, en önnur þeirra verður í HD, eða háskerpu. Fleiri einkastöðvar verða sendar út um stafræna kerfið og geta því þúsundir heimila í hinum dreifðu byggðum nú í fyrsta sinn séð fleiri sjónvarpsstöðvar en RÚV. Að auki er fjöldi útvarpsstöðva sendur út með nýja kerfinu til viðbótar við útvarpsrásir RÚV, að því er segir í tilkynningu.
„Forsagan að uppbyggingu nýs dreifikerfis sjónvarps er sú að fyrir allnokkrum árum lá fyrir að útsendingar Ríkisútvarpsins þyrftu að fara úr hliðrænum sendingum yfir í stafrænar. Flestar aðrar Evrópuþjóðir hafa gengið í gegnum sams konar breytingar á síðustu árum. Samkvæmt Evróputilskipun lá fyrir að útsendingar hér á landi þyrftu að verða stafrænar. Ríkisútvarpið stóð fyrir útboði á dreifiþjónustu sem lauk með því að samningur var gerður við Vodafone árið 2013. Í kjölfar þess hófst uppbygging á nýju stafrænu dreifikerfi og samhliða því var byrjað að taka hliðræna kerfið niður . Á þessu tímabili hefur Ríkisútvarpið því að hluta til rekið tvöfalt dreifikerfi.
Nýtt kerfi verður öruggara en hið gamla auk þess sem það nýtir mun minni orku en hið eldra og er því umhverfisvænna. Öll nýleg sjónvörp sem og öll sjónvörp sem tengd eru myndlykli ná stafrænum útsendingum. Fyrir eldri sjónvörp sem ekki eru tengd myndlykli er hægt að kaupa eða leigja stafrænan móttaka til að ná útsendingum nýja kerfisins,“ segir ennfremur.