Íslendingur kortlagði Evrópu

Tölvunarfræðingurinn Björn Jónsson hefur kortlagt Evrópu, eitt fjögurra svonefndra Galíleótungla Júpíters, upp á nýtt og gert það sem ætti að vera nákvæmasta kort sem til er af tunglinu. Áður hefur Björn skerpt myndir sem geimför hafa tekið af Júpíter sjálfum og Úranusi.

Evrópa er talin einn mest spennandi hnötturinn í sólkerfinu því vísindamenn halda að undir ísskorpu yfirborðsins sé að finna fljótandi vatn. Ekki sé hægt að útiloka að líf gæti hafa kviknað þar í námunda við jarðhita neðansjávar líkt og þekkt er á jörðinni. Könnunarförin Voyager 2 og Galileo hafa meðal annars tekið fjölda mynda af Evrópu.

Í bloggfærslu á vef Planetary Society skrifar Björn um vinnu sína við að skerpa þau kort sem hafa verið til að Evrópu fram að þessu með myndvinnslutækni. Stór hluti yfirborðsins hafi verið kortlagður með mikilli upplausn en stór hluti þess sé þó aðeins til í tiltölulega lágri upplausn. Ástæðu þess að Björn réðist í að reyna að betrumbæta kortin segir hann meðal annars vera þá að geimför sem geta náð betri myndum af Evrópu séu ekki væntanlega þangað fyrr en á næsta áratug.

Rúmlega tvö hundruð myndir fóru í kortið

Til þess að bæta kortin notaði Björn 190 myndir sem Galileo-geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA tók af Evrópu auk fjórtán mynda frá Voyager 2. Niðurstaðan er líklega skýrasta og nákvæmasta kort sem gert hefur verið af tunglinu.

„Þetta kort ætti að vera gilt og í samræmi við nýjustu upplýsingar þangað til JUICE-geimfar evrópsku geimstofnunarinnar ESA og/eða Europa Clipper-geimfar NASA koma til Evrópu. Þegar að því kemur vona ég að kortið verði fljótt úrelt,“ skrifar Björn.

Áður hefur Björn meðal annars unnið gamlar myndir Voyager-geimfaranna af Úranusi og tekist að draga fram meiri smáatriði í lofthjúpi reikistjörnunnar en áður var hægt að greina. Hann hefur einnig unnið skörpustu mynd sem til er af stóra rauða blettinum á Júpíter.

Færsla Björns um kortagerðina á vef Planetary Society

Fyrri frétt mbl.is: Gerði Úranus meira spennandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert