Höfum kosið að gera ekkert

Kínverjar hafa aukið losun sína á gróðurhúsalofttegundum mikið og munu …
Kínverjar hafa aukið losun sína á gróðurhúsalofttegundum mikið og munu halda því áfram. EPA

Það er rétt svo gerlegt að ná markmiði sem þjóðir heims hafa sett sér um að takmarka hlýnun jarðar. Menn hafa hins vegar valið að gera það ekki. Þetta sagði Kevin Anderson, prófessor í loftslagsfræðum, í fyrirlestri í Háskóla Íslands í dag. Hann dregur upp dökka mynd af framtíðinni. 

Anderson er prófessor í orkumálum og loftslagsbreytingum við Háskólann í Manchester og hefur stýrt Tyndall-loftslagsrannsóknarstofnuninni þar í borg. Hann hefur verið afdráttarlaus í leggja áherslu á hættuna sem stafar af loftslagsbreytingum af völdum manna og það ósamræmi sem á milli hennar og orðræðu stjórnmálamanna. Hann kom hingað til lands með Brúarfossi þar sem hann telur ekki hægt að réttlæta þá losun kolefnis sem flugferðin hingað hefði valdið. 

„Mér er sagt að fyrirlestrar mínir séu niðurdrepandi. Þess vegna ætla ég að byrja á niðurstöðunum og vona að þær séu meira upplífgandi,“ sagði Anderson þegar hann hóf mál sitt.

Þannig byrjaði hann á að lýsa þeirri skoðun sinni að það væri mögulegt að ná því markmiði sem þjóðir heims hafa sett sér að halda hlýnun jarðar innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Það væri hins vegar aðeins rétt svo gerlegt og slíkar loftslagsbreytingar myndu þýða það að fjöldi fólks myndi farast á jörðinni, fólk sem hefði haft lítið sem ekkert að gera með þá losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur breytingunum.

Menn hafa talað um að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir hættulegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Það sagði Anderson að væri aðeins orðin tóm enn sem komið er. Frá því að menn fóru fyrst að viðra áhyggjur af því að losun mannkyns á gróðurhúsalofttegundum gæti breytt loftslagi jarðarinnar á 9. áratug síðustu aldar og fyrsta skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kom út árið 1990 þar sem varað var við þessari hættu hafi menn aðeins horft á losunina aukast.

Nú sé losun jarðarbúa á gróðurhúsalofttegundum 60% meiri en hún var árið 1990 þegar menn byrjuðu fyrst að hafa áhyggjur. Árið 2010, þegar loftslagsnefndin gaf út síðustu skýrslu sína, hafi menn verið komnir langleiðina með að tvöfalda árlega losun sína. Frá árinu 2007 hafi menn dælt um 200 milljörðum tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Losunin hafi þar að auki ekki aðeins farið vaxandi heldur aukist hún nú hraðar en hún gerði áður. Allt hefur þetta leitt til þess að styrkur þessarar gróðurhúsalofttegundar í lofthjúpnum er nú meiri en undanfarin 800.000 ár.

„Listinn yfir vanrækslu okkar er fremur sláandi, að mínu mati,“ sagði Anderson.

Það sem við gerum í dag mótar framtíðina

Haldi menn áfram sömu þróun í losun gróðurhúsalofttegunda gæti heildarlosunin á þessari öld numið um 5.000 milljörðum tonna af koltvísýringi. Það þýði á bilinu 4-6°C hlýnun á meðaltalshita á jörðinni á síðustu þrjátíu árum aldarinnar. Kvótinn sem menn geti losað án þess að fara yfir þessar 2°C sé hins vegar um 1.000 milljarðar tonna.

Til þess að ná því markmiði að halda hlýnuninni innan við 2°C segir Anderson að eina leiðin sé að draga skarpt úr losun gróðurhúsalofttegunda. Margir haldi að ný tækni eigi eftir að bjarga mönnum fyrir horn í loftslagsmálum. Það sé hins vegar ekki rétt að öllu leyti. Þó svo að ný tækni geti vissulega átt þátt í að leysa vandann þá geti menn ekki byggt sig frá vandanum með verkfræðina eina að vopni.

Þegar menn byggi innviði samfélagsins, hvort sem það eru orkuver, íbúðarhús, flugvélar eða skip þá hafi menn „læst“ þau inn í kerfið. Orkuverin endist allt frá einhverjum áratugum og upp í öld, það sama eigi við húsin og flugvélar og skip séu í notkun í 20-30 ár.

„Allt sem við gerum í dag mótar framtíðina,“ sagði Anderson.

Sólarrafhlöður á Indlandi. Menn þurf að stórauka hlut endurnýjanlegra orkugjafa …
Sólarrafhlöður á Indlandi. Menn þurf að stórauka hlut endurnýjanlegra orkugjafa eins fljótt og hægt er. Anderson telur það hins vegar ekki geta gerst nógu hratt. Draga þurfi úr orkuþörfinni sjálfri. AFP

Ýmsir náttúruverndarsinnar hafi skipt um skoðun á kjarnorku vegna þess að hún sé nánast sambærileg við endurnýjanlega orkugjafa hvað varðar kolefnalosun. Kjarnorka standi hins vegar aðeins undir um 2,5% af heildarorkuþörf jarðarbúa þessa stundina. Ef takast ætti að uppfylla verulegan hluta af þeirri þörf með kjarnorku, til dæmis 25%, þyrfti að reisa um 4.000 ný kjarnorkuver á næstu þrjátíu árum. Um þessar mundir séu 70 í byggingu. 

„Við getum ekki byggt okkur nógu hratt frá þessu til að komast hjá því að fara yfir kvótann. Það þýðir að við verðum að draga úr eftirspurn okkar eftir orku,“ sagði prófessorinn.

4°C ekki samræmanlegar skipulögðu alþjóðasamfélagi

Þá fór Anderson yfir þær áætlanir sem menn hafi sett sér nú um að halda hlýnuninni innan við 2°C. Sé gengið út frá því að þróunarríki eins og Kína og Indland fái að seinka því að draga úr sinni losun til að þau fái tækifæri til að byggja sig upp, eins og sanngjarnt sé þar sem þau beri að mestu leyti ekki ábyrgð á þeirri losun sem þegar hefur átt sér stað, og að þau nái hámarki losunar sinnar árið 2025 þá sé það mikil áskorun en gæti verið gerlegt.

Þetta þýði hins vegar það að þau þurfi svo að draga úr losun sinni um 6-8% á hverju ári, sem sé gríðarlega mikið. Ennfremur þýði það að til þess að jarðarbúar í heild haldi sig innan þess kvóta sem menn tengja við 2°C hlýnun þurfi þróuð ríki að draga úr sinni losun um 10% á hverju einasta ári, helst frá og með gærdeginum. Það þýði 40% samdrátt á losun fyrir 2018 miðað við árið 1990, 70% samdrátt árið 2024 og losunin þyrfti að vera komin niður í svo gott sem núll fyrir árið 2030. Þetta sé hin einfalda stærðfræðilega niðurstaða um það sem til þarf til að menn haldi sig innan þessa þekkta kvóta.

Í ljósi þess hversu mikinn samdrátt þarf á losun og hversu erfitt sé að ná honum fram varpaði Anderson fram þeirri spurningu hvað 4°C hlýnun jarðar þýddi. Niðurstaðan var sú að samfélag manna gæti ekki aðlagast slíkum breytingum, almennt séð.

Þar væri aðeins um hnattrænt meðaltal að ræða og hlýnunin yfir föstu landi yrði töluvert meiri. Sums staðar í Bandaríkjunum gæti hlýnunin numið 10-14°C. Við þessar aðstæður yrðu hitabylgjur mögulega skæðari og langvinnari, innviðir samfélagsins eins og rafmagnslínur og vegir gætu brugðist vegna hitans og uppskera á sumum svæðum gæti minnkað um allt að 40%. Því sagði Anderson að 4°C hlýnun væri ekki samræmanleg við skipulagt alþjóðasamfélag.

„Ég hugsa að við munum teygja okkur eftir Kalashnikov-rifflinum og berjast um auðlindirnar,“ sagði Anderson sem lagði á það mikla áherslu að forðast þyrfti 4°C hlýnun fyrir alla muni og að um það væri líklega engin ósammála.

Kevin Anderson, prófessor við Háskólann í Manchester, er ómyrkur í …
Kevin Anderson, prófessor við Háskólann í Manchester, er ómyrkur í máli um þær breytingar sem við erum að valda á loftslagi jarðarinnar. Janus Jakobsson

Velja á milli sólarlandsferða og afkomu íbúa þróunarlanda

Í þessu ljósi barst talið aftur að markmiðinu um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og fýsileika þess að ná því.

„Ég held að við getum haldið okkur innan við 2°C hlýnun, rétt svo, en ég held að við munum kjósa að gera það ekki,“ sagði Anderson.

Við höfum öll ákveðið að gera ekkert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vandamálið sé ekki fólksfjöldi í heiminum heldur neysla. Það sé tiltölulega fámennur hópur, aðallega frá ríkum löndum sem stendur fyrir meginþorra losunarinnar, sagði Anderson.

Til að draga úr losun stæði fólk frammi fyrir erfiðu vali. Það geti valið að fara í frí til sólarlanda með flugi en um leið sé það þá að seinka því að fólk í þróunarlöndum geti komist upp úr fátækt. Það er vegna þess að með því göngum við á þann kvóta sem við höfum til að losa kolefni út í andrúmsloftið án þess að hlýnunin verði meiri en sú sem menn hafa komið sér saman um að séu hættumörk.

Því stingur Anderson upp á því að fólk dragi úr orkuþörf sinni. Það sé erfitt og það þýði verulegar breytingar á daglegu lífi. Lífið gæti orðið betra að vissu leyti með þeim en það gæti einnig orðið verra að öðru leyti.

Fönixinn stígi upp úr logum kolefnaeldsneytisins

Aftur fór hann út á niðurdrepandi brautir þegar hann lýsti því hvað heimaland hans, Bretlands, sem er eitt af leiðandi löndum heims í loftslagsmálum væri að aðhafast. Uppbygging í bergbroti væri styrkt af ríkinu, fjárfesting í olíuvinnslu í Norðursjó hafi aldrei verið meiri, losunartakmörk á bíla hafi verið rýmkuð og lagt hafi verið til að þrjátíu ný gasorkuver verði reist svo dæmi séu tekin.

Sem dæmi um leiðir til að draga úr orkuþörf með nýrri tækni nefndi Anderson að hægt væri að draga úr losun frá einkabílum og ísskápum um 50-60% á fáum árum. Þannig eyddu til dæmis sparneytnustu ískáparnir, sem er orkufrekasta tækið á heimilum fólks, 80% minni orku en venjulegir ísskápar. Spurning væri því hvers vegna þeir orkufrekari væru ennþá til sölu. Svarið við því væri að fólk teldi að það yrði að hafa val og ríkisvaldið mætti ekki setja fólki reglur um hvað það mætti og mætti ekki nota.

„Tæknin getur breytt miklu en við kjósum að nota hana ekki,“ sagði Anderson.

Fólk hafi verið neytt til að hugsa um heiminn á efnahagslegum forsendum þar sem allt snúist um að skapa sem mestan hagnað. Sá hugsunarháttur hefði hins vegar beðið algert skipbrot. Menn þyrftu að losna frá því að nota peninga sem mælikvarða á hversu vel samfélagið standi sig.

„Við þurfum að losa okkur úr hlekkjum hugarfars 20. aldarinnar til að ráða fram úr áskorunum 21. aldarinnar,“ sagði prófessorinn.

Yfirskrift erindis Anderson var „Strúturinn eða Fönixinn?“. Í upphafi þess sagði hann að strúturinn væri táknrænn fyrir jarðarbúa sem stinga höfðinu í sandinn til að fela sig fyrir erfiðleikunum sem steðja að. Hann vonist hins vegar sjálfur til að Fönixinn geti stigið upp úr logum kolefnaeldsneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka