Ekkert „hlé“ á hlýnun

Rannsókn Mann og félaga bendir til þess að náttúruleg sveifla …
Rannsókn Mann og félaga bendir til þess að náttúruleg sveifla í Kyrrahafi hafi dulið hlýnun af völdum manna undanfarinn áratug. AFP

Náttúruleg kólnun í Kyrrahafi hefur orðið til þess að hnattræn hlýnun hefur ekki orðið eins mikil undanfarin ár og líkön gerðu upphaflega ráð fyrir. Ný rannsókn á þessu bendir til þess að sú kólnun muni tæplega vara lengi og þegar áhrifa hennar hætti að gæta leggist það ofan á hlýnun af völdum manna.

Því hefur verið haldið fram að hlé hafi orðið á hnattrænni hlýnun undanfarinn áratug eða meira. Loftslagsfræðingurinn Michael Mann, sem er prófessor í veðurfræði við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu, segir hins vegar að ekkert slíkt hafi átt sér stað. Hið rétta sé að hlýnunin hafi verið minni en loftslagslíkön sögðu fyrir um. Það þýði ekki að þau séu gölluð heldur sé líklegt að misræmi hafi orðið í þeim vegna þriggja meginþátta.

Líklegt sé að menn hafi vanmetið þá hlýnun sem þegar hafi átt sér stað, þeir hafi ekki tekið nægilega með í reikninginn suma náttúrulega áhrifavalda eins og eldgos og flökt í sólarvirkni sem hafi haft örlítil kólnunaráhrif og að náttúrulegar sveiflur hafi mögulega falið hluta af yfirborðshlýnuninni undanfarna áratugi.

Leggst ofan á hlýnun af völdum manna

Mann, ásamt fleirum, rannsakaði síðastnefnda möguleikann og birti niðurstöðurnar í síðustu viku. Með því að kanna hitastig í Kyrrahafi og Atlantshafi allt aftur til ársins 1850 þar sem náttúrulegar sveiflur eiga sér stað í vindum og hafstraumum sem geta varað í áratugi komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að sveifla í Kyrrahafinu hefði haft tímabundin áhrif á hnattræna hlýnun undanfarinn áratug. Sveiflan hefði gefið falska ásýnd þess að hlé hefði orðið á hlýnuninni.

„Svo virðist sem aðaldrifkrafturinn sé Kyrrahafið. Atlantshafið er í minniháttar hlutverki þessa stundina,“ segir Mann við Reuters-fréttastofuna um hlut úthafanna í að fela hlýnunina.

Ólíklegt sé að þessi áhrif verði langlíf í ljósi þekktra sveiflna. Þegar umskipti verði muni áhrifin leggjast ofan á þá hnattrænu hlýnun sem menn valda með síaukinni losun sinni á gróðurhúsalofttegundum.

Árið 2013 sagði loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að hægari hlýnun væri líklega afleiðing nokkurra áhrifaþátta eins og náttúrulegra sveiflna á borð við breytingar á hitastigi sjávar, kólnunar af völdum eldgosa og sólarvirkni sem gengur í gegnum ellefu ára tímabil meiri og minni virkni.

„Það að það hægist á hlýnun er líklega af völdum ýmissa samverkandi þátta,“ segir Mann.

Frétt Reuters af rannsókn Mann og félaga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert