Venjuleg sjónvarpsdagskrá hefur átt frábæru gengi að fagna síðustu 50 árin, en nú er komið að netsjónvarpi og að það mun taka yfir hefðbundið sjónvarp á næstu 20 árum. Þetta segir Reed Hasting, forstjóri Netflix, en velgengni fyrirtækisins er gríðarleg, meðan hefðbundnar sjónvarpsstöðvar eiga margar hverjar í vandræðum. Fjallað er um Netflix og samkeppni fyrirtækisins á Business insider.
Netflix hefur á síðustu misserum haldið áfram að vaxa, þótt aðeins sé farið að hægja á stígandanum. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fjölgaði notendum í Bandaríkjunum til að mynda um 2,3 milljónir sem er talsvert yfir væntingum sérfræðinga. Þá fjölgaði notendum utan Bandaríkjanna um 2,6 milljónir á sama tíma, en það er einnig talsvert yfir væntingum.
Vöxtur fyrirtækisins byggir ekki síst á því að bjóða upp á vinsælar þáttaraðir sem fyrirtækið framleiðir sjálft, að sögn Hastings. Sem dæmi um slíkar þáttaraðir eru House of cards, Orange is the new black, Bloodline og Unbreakable Kimmy Schmidt.