Samtök ástralskra heimilislækna hafa farið þess á leit við lyfjafræðinga þar í landi að þeir taki remedíur hómópata úr hillum apóteka og varað lækna við að skrifa upp á þær vegna þess að þær gera ekkert gagn. Forseti samtakanna segir fólk gæti stefnt heilsu sinni í voða með því að reiða sig á þær.
Heilsu- og læknisfræðirannsóknarráð Ástralíu hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að remedíur hómópata hafi engin áhrif umfram lyfleysur. Nú hafa Konunglegu áströlsku heimilislæknasamtökin (RACGP) mælt formlega með því við lækna að þeir skrifi ekki upp á remedíur og lyfjafræðinga að þeir fjarlægi þær úr lyfjaverslunum því engin gögn sýni fram á virkni þeirra.
Frank Jones, forseti samtakanna, segir að þeir sem snúa sér að hómópatía til að ráða bót á heilsufarsvandamálum stefni sjálfum sér í voða. Efni sem engin stoð væru fyrir á borð við remedíur gætu frestað því að fólk leiti sér raunverulegrar læknisaðstoðar og hafni henni jafnvel algerlega. Sérstökum áhyggjum lýsti hann þó af svonefndum „bólusetningum“ hómópata.
„Þessir óhefðbundnu valkostir koma ekki í veg fyrir sjúkdóma eða auka verndandi mótefni og það er engin trúverðug líffræðileg leið til þess að þessir valkostir geti komið í veg fyrir sýkingu. Einstaklingar og samfélagið er gert berskjaldað fyrir sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir þegar hómópatabóluefni eru notuð sem valkostir við hefðbundna bólusetningu,“ segir Jones.
Samtök lyfjafræðinga segja það hins vegar upp á hvern og einn lyfjafræðing komið að ákveða hvort þeir haldi áfram að selja remedíur. Þau segjast ekki vera eftirlitsstofnun og þau muni því ekki taka undir tilmæli læknasamtakanna.
Frétt The Guardian af tilmælum ástralskra heimilislækna um hómópatíu