Ekki hefur hægt á hlýnun

Ekkert hlé hefur orðið á hnattrænni hlýnun eins og haldið …
Ekkert hlé hefur orðið á hnattrænni hlýnun eins og haldið hefur verið fram, samkvæmt uppfærðum gögnum NOAA. AFP

Gögn um hitastig á landi og í sjó sem vísindamenn Haf- og loftslagsrannsóknastofnunar Bandaríkjanna (NOAA) hafa uppfært sýna að hnattræn hlýnun hefur ekki stöðvast né hefur hægt á henni undanfarin ár eins og hugmyndir hafa verið um. Hlýnunin hefur verið sú sama frá miðri síðustu öld.

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hafði jafnvel tekið undir þá hugmynd að hægt hefði á hlýnuninni yfir fimmtán ára tímabil á milli 1998 og 2012 miðað við þá sem hafði átt sér stað frá 1951. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um það, þar á meðal að náttúrulegar sveiflur í loftslaginu, aska úr eldgosum og að Kyrrahafið hafi tímabundið drukkið í sig hitann.

Nú segir hópur vísindamanna frá umhverfisupplýsingamiðstöð NOAA í grein sem birtist í tímaritinu Science að ekkert hlé hafi átt sér stað. Þegar leiðrétt hafi verið fyrir skekkju í mælingum, þar á meðal þeirra sem gerðar hafa verið með skipum og baujum á hafinu, þá bendi þær ekki til þess að hlé hafi orðið á hlýnun.

Thomas Karl, forstöðumaður miðstöðvarinnar, segir að meiriháttar uppfærsla hafi verið gerð á gagnagrunni NOAA um hitastig. Í ljós hafi komið að nákvæmari mælingar hafi fengist með baujum en skipum og nú hafi verið vegið upp á móti muninum á þeim. 

Þegar við bættust nýjar mælingar á hitastigi á landi um allan heim kom í ljós að þróunin á fyrstu fimmtán árum þessarar aldar er í samræmi við þá sem átti sér stað á síðari helmingi síðustu aldar. Karl segir að hlýnunin frá 1950-1999 hafi numið 0,113°C á áratug en frá 2000-2014 hafi hún numið 0,116°C á áratug.

Þróunin svipuð, jafnvel miðað við metár

Þeir sem hafa reynt að grafa undan vísindunum á bak við loftslagsbreytingar hafa oft vísað til „hlésins“ á hlýnun. Þá hafa þeir gjarnan látið samanburðartímabil sín hefjast árið 1998 en það var sérstaklega hlýtt ár vegna óvenjusterkra áhrifa frá El niño. Þannig virðist hlýnunin hafa verið minni undanfarin ár.

Uppfærðar tölur NOAA benda hins vegar til þess að jafnvel þó að 1998 sé notað sem upphafsár samanburðar sé þróunin ekki mjög frábrugðin þeirri sem átti sér stað á síðustu öld. Auk þess bendir Karl á að nýju tölurnar taki jafnvel ekki nægilega vel með í reikninginn mikla hlýnun sem hafi átt sér stað á norðurskautinu undanfarið.

Frétt The Washington Post af rannsókn NOAA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert