Lendingarfarið Philae sem hefur setið í dvala á yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko síðan í nóvember vaknaði upp í dag, en með meiri nálægð við sólina hefur verið hægt að hlaða sólarbatterí farsins nægjanlega til að kveikja á því að nýju. Í frétt á vef BBC kemur fram að sambandið við farið hafi nú varað í 85 sekúndur og kom tíst á Twitter með skilaboðum frá farinu.
Philae var sent á vegum Evrópsku geimstofnunarinnar, ESA, en það var losað frá móðurfarinu Rosetta þann 12. nóvember á síðasta ári. Hafði Rosetta þá verið á leiðinni að halastjörnunni í 10 ár og ferðast alls rúma sex milljarða kílómetra.
Við lendingu skoppaði farið allt að kílómetra upp af yfirborðinu áður en það lenti á ný. Reynt var að tjóðra það niður með skutlum, en yfirborð halastjörnunnar var of hart til að það tækist. Endaði farið innan um kletta sem skyggja á sólarrafhlöður þess og því fór Philae í dvala eftir að hafa sent rannsóknaupplýsingar í 60 klukkustundir. Síðan þá hefur halastjarnan verið of langt frá sóliinni fyrir rafhlöðurnar til að hlaðast, en vonast var til þess að farið myndi vakna á ný þegar nær væri komið.
Hello Earth! Can you hear me? #WakeUpPhilae
— Philae Lander (@Philae2014) June 14, 2015