Dómstóll í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að bílstjórar sem keyra fyrir Uber, leigubílaþjónustuna vinsælu, séu starfsmenn fyrirtækisins, en ekki sjálfstæðir verktakar.
Ákvörðunin gæti haft mikla þýðingu, allavega fyrir starfsemi fyrirtækisins í Kaliforníu. Kostnaður Uber mun væntanlega aukast mikið en fyrirtækið þarf meðal annars að greiða lífeyri og atvinnuleysistryggingar.
Talsmaður Uber sagði að fyrirtækið væri ósammála dómnum. Það líti svo á, og hafi ávallt gert, að bílstjórarnir séu verktakar.
Sérfræðingar benda á að þó svo að dómurinn gildi aðeins í Kaliforníu, þá gæti hann veitt fordæmi í öðrum ríkjum og jafnvel í Evrópu.
Í mörgum stórborgum heimsins eru þjónustur eins og Uber byrjaðar að taka við af hefðbundnum leigubílaþjónustum. Þar pantar fólk bílana með því að smella á einn takka í símanum og bíllinn kemur svo innan stundar.
Uber er metið á um fjörutíu milljarða dala og starfar í um 250 borgum víðs vegar um heim.