Einstakt myndband af sólmyrkvanum

Myndbandið spannar 12 klukkustundir og sýnir breytinguna frá nóttu yfir …
Myndbandið spannar 12 klukkustundir og sýnir breytinguna frá nóttu yfir í morgun þegar sólmyrkvinn verður og aftur yfir í dagsbirtu. Mynd/Youtube skjáskot

Að morgni 20. mars á þessu ári stóðu margir Íslendingar úti og fylgdust með sólmyrkvanum sem átti sér stað, en sjá mátti verulegan deildarmyrkva og varð talsvert dimmt um allt land. Einn þeirra sem hafði áhuga á þessum viðburði var ljósmyndarinn Ágúst Sigurjónsson, en hann tók upp sólmyrkvann og hefur nú sett saman og birt sem hágæða „timelapse“ myndband, en þá eru myndir settar saman þannig að úr verði myndband.

Samkvæmt stjörnufræðivefsins verður sólmyrkvi þegar tunglið geng­ur milli sól­ar og Jarðar og myrkv­ar sól­ina að hluta til eða í heild frá jörðu séð. Það ger­ist aðeins þegar sól­in, tunglið og jörðin eru í beinni línu (kallað raðstaða eða okstaða). Sól­myrkv­ar geta því ein­göngu orðið þegar tungl er nýtt. Við al­myrkva hyl­ur tunglið skífu sól­ar í heild sinni en við deild­ar- eða hring­myrkva er aðeins hluti sól­ar hul­inn

Sólmyrkvinn í ár náði hámarki í Reykjavík klukkan 9:37, en svo tók óðum til að birta á ný.

Í upplýsingum sem fylgja myndbandinu segir Ágúst að hann hafi vakað alla nóttina til að taka upp breytinguna frá nóttu til sólarupprásar til sólmyrkvans og svo aftur yfir til dagsbirtu. Segir hann að sjá megi norðurljós, stjörnur, þoku og fullt af flugvélum á myndskeiðinu.

Undirbúningurinn tók að hans sögn langan tíma, en lengstan tíma tók að vinna úr þeim tugum þúsunda háskerpu myndum sem hann tók á tímabilinu og búa til myndskeið úr þeim. Myndatakan sjálf tók 12 klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert