Ómönnuð eldflaug sprakk skömmu eftir að henni var skotið upp í geimstöðinni Cape Canaveral í Flórída í Bandaríkjunum. SpaceX er í eigu frumkvöðulsins Elon Musk og er markmið hans með SpaceX-verkefninu að þróa endurnýtanlega eldflaug. Þannig má hreinsa og endurvinna eldflaugahlutann og spara stórar upphæðir.
Átti þessi eldflaug að koma geimflaug til alþjóðlegu geimstöðvarinnar með birgðir.
Óhappið kom á óvart þar sem að SpaceX hafði skotið átján Falcon-eldflaugum í röð á loft án óhappa. Markmið SpaceX er enn að ná að endurnýta fyrsta stig Falcon-eldflauganna. Tvær tilraunir til að lenda eldflaugarhlutanum á pramma á hafi úti í janúar og apríl misheppnuðust en Musk heldur engu að síður ótrauður áfram.
Sjá frétt mbl.is: Eldflaugarskot SpaceX misheppnaðist
Uppfært 29.6.15: Síðustu málsgrein breytt sem hægt var að skilja þannig að tvær aðrar eldflaugar SpaceX hefðu farist á árinu.