Stjórnendur New Horizons fengu hland fyrir hjartað um helgina þegar samband við geimfarið rofnaði. Í varúðarskyni var farið sett á örugga stillingu á meðan gallans var leitað. Hann reyndist ekki alvarlegur og segja stjórnendurnir að geimfarið verði tilbúið þegar það flýgur fram hjá Plútó eftir viku.
Fráviksins varð vart á laugardag og hefur rannsókn leitt í ljós að hvorki vélbúnaður eða hugbúnaður hafi bilað. Orsök vandræðanna hafi verið galli í tímasetningu skipana geimfarsins sem erfitt hafi verið að koma auga á. Gallinn hafi látið á sér kræla þegar aðgerð til að undirbúa geimfarið fyrir að fljúga fram hjá Plútókerfinu var í gangi. Fleiri slíkar aðgerðir eru ekki fyrirhugaðar fyrir þriðjudaginn í næstu viku þegar geimfarið nær takmarki sínu.
„Hvað vísindastörfin varðar þá mun þetta ekki einu sinni breyta A+ í A,“ segir Alan Stern, aðalvísindamaður New Horizons-leiðangurs NASA.
Þriðjudaginn 14. júlí mun geimfarið fljúga fram hjá Plútó og tunglum hans. Þegar New Horizons verður næst Plútó verður það í um 12.500 kílómetra fjarlægð frá dvergreikistjörnunni. Þá mun það geta greint fyrirbæri á yfirborðinu sem eru eins lítil og tjarnirnar í Central Park í New York, að sögn leiðangursstjóranna.