Líf gæti leynst undir ísnum

Halastjörnur eins og 67P/Churyumov-Gerasimenko gætu hafa komið með lífið til …
Halastjörnur eins og 67P/Churyumov-Gerasimenko gætu hafa komið með lífið til jarðarinnar. AFP

Svartleit skorpan á halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko er að líkindum tilkomin vegna frumstæðra lífvera undir ísilögðu yfirborði hennar. Þetta er mat vísindamanns sem undirbjó leiðangur geimfaranna Rosettu og Philae til halastjörnunnar fyrir fimmtán árum.

Þekkt er að harðgerðar örverur þrífast á jafnvel ólífvænlegustu stöðum jarðar og hefur það breytt hugmyndum manna um möguleikann á að finna líf utan jarðarinnar. Vísindamenn hafa meðal annars varpað fram þeirri kenningu að örverur sem hafi verið bundnar í vatnsís halastjarna sem hafa rekist á jörðina hafi kveikt lífið hér.

Nú telja vísindamenn sig hafa greint merki um slíkt frumstætt líf á halastjörnunni sem geimfarið Philae lenti á í nóvember. Chandra Wickramasinghe, stjörnufræðingur og stjörnulíffræðingur sem kom að undirbúningi Rosetta-leiðangursins fyrir fimmtán árum, og Max Wallis frá Cardiff-háskóla, munu í það minnsta færa rök fyrir því að orsök svartleitrar skorpu sem rík er af lífrænum efnasamböndum á halastjörnunni séu örverur undir vatnsísnum á yfirborði hennar á fundi Konunglega stjörnufræðifélagsins á næstunni. Þetta kemur fram í The Guardian.

Skorpan endurnýjast eftir því sem hún gufar upp

Tölvulíkön sem vísindamennirnir hafa gert benda til þess að harðgerðar örverur gætu þrifist á vatnsríkum hlutum halastjörnunnar við allt að -40°C. Wickramasinghe segir að gögn sem berast frá halastjörnunni bendi til þess að örverur komi að myndun íssins, arómatískra kolvatnsefna og svarts yfirborðsins. Erfitt sé að útskýra það efnafræðilega án aðkomu lífs.

„Dökka efnið er alltaf að endurnýjast eftir því sem það gufar upp vegna hitans frá sólinni. Eitthvað hlýtur að vera að gera það á nokkuð afkastamikinn hátt,“ segir Wickramasinghe.

Hvorki Rosetta né Philae eru hins vegar útbúin mælitækjum sem gætu leitað eftir beinum vísbendingum um líf á halastjörnunni. Wikcramasinghe telur að fólk ætti að vera opnara fyrir möguleikanum á lífi utan jarðarinnar.

„Fyrir fimm hundruð árum var erfitt að fá fólk til að samþykkja að jörðin væri ekki miðja alheimsins. Eftir þá byltingu hefur hugsunarháttur okkar haldið áfram að vera jarðmiðaður hvað varðar líf og líffræði. Hann er rótgróinn í vísindamenningu okkar og það mun þurfa mikið magn sönnunargagna til þess að velta honum úr sessi,“ segir hann.

Frétt The Guardian af kenningum um líf á halastjörnunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert