Andlitsdrættir dvergreikistjörnunnar Plútós eru sífellt að verða skýrari, nú þegar innan við sólarhringur er þar til New Horizons þeytist fram hjá hnettinum. Á myndum sem farið hefur sent til baka er nú í fyrsta skipti hægt að greina landslag eins og gíga og kletta.
Níu og hálfs árs og fimm milljarða kílómetra ferðalagi New Horizons til Plútó lýkur á morgun en í kringum hádegi að íslenskum tíma verður geimfarið í aðeins 12.500 kílómetra fjarlægð frá dvergreikistjörnunni. Þá mun það þjóta fram hjá Plútó og tunglum hans á tæplega 50.000 km/klst.
Eftir alla þessa bið þurfa íbúar jarðarinnar hins vegar að bíða aðeins lengur eftir fyrstu gögnunum frá geimfarinu. Hver einasta sekúnda framhjáflugsins er þaulskipulögð og til að hámarka þær athuganir sem farið getur gert á þeim 22 klukkustundum sem það er næst Plútókerfinu verður öllum samskiptum við það hætt.
Nærri níu klukkustundum eftir framhjáflugið mun New Horizons loks snúa loftneti sínu í átt að jörðinni og byrja að senda þangað gögn, þar á meðal fyrstu nærmyndirnar af yfirborði Plútós og Karons. Vegna þess hversu langt Plútó er frá jörðinni tekur það útvarpsmerkið tæplega fjórar og hálfa klukkustund að berast til jarðar.
Búist er við að fyrstu myndir verði komnar til jarðar klukkan 01:09 að íslenskum tíma aðfaranótt miðvikudagsins 15. júlí, að því er kemur fram á Stjörnufræðivefnum. Að þessu loknu halda rannsóknir áfram næstu tvo mánuði. Hinn 14. september byrjar geimfarið að senda öll gögn óþjöppuð til jarðar og er búist við því ljúki í nóvember 2016. Heildargagnaflutningurinn tekur því um eitt og hálft ár.
New Horizons mun þó senda 1% af helstu gögnum sínum til jarðar til 20. júlí, þar á meðal fjórtán nærmyndir LORRI-myndavélarinnar og tvær myndir Ralph-mælitækisins af Plútó, Karon, Nix og Hýdru.
Frétt á Stjörnufræðivefnum um framhjáflug New Horizons
Frétt á vef NASA um nýjar myndir sem sýna kennileiti á Plútó