Hawking hyllir New Horizons-teymið

Mynd New Horizons af Plútó áður en framhjáflugið hófst. Hún …
Mynd New Horizons af Plútó áður en framhjáflugið hófst. Hún er tekin úr um 766.000 kílómetra fjarlægð sem er um það bil tvöföld fjarlægðin á milli jarðarinnar og tunglsins. NASA

Upplýsingarnar sem New Horizons aflar nú um Plútó og fylgitungl hans gæti hjálpað mönnum að skilja hvernig sólkerfið okkar varð til, að sögn eðlisfræðingsins Stephens Hawking. Hann sendi New Horizons-teyminu hamingjuóskir sínar í dag í tilefni flugs þess fram hjá dvergreikistjörnunni.

„Núna opnast sólkerfið okkur frekar og leyndarmál hins fjarlæga Plútós afhjúpast. Upplýsingar New Horizons gætu hjálpað okkur að skilja betur hvernig sólkerfið okkar myndaðist. Við könnum vegna þess að við erum menn og viljum vita. Ég vona að Plútó hjálpi okkur á þeirri vegferð. Ég mun fylgjast grannt með og vona að það gerið þið líka,“ segir Hawking í myndbandi þar sem hann fagnaði heimsókn New Horizons til Plútós.

Stephen Hawking NASA Statement

I would like to congratulate the New Horizons team and NASA - National Aeronautics and Space Administration for their historic flyby of Pluto. The culmination of a decade long mission, I can't wait to see what new information the New Horizons spacecraft will reveal about our distant relative. - SH

Posted by Stephen Hawking on Tuesday, 14 July 2015

Fyrstu nærmyndirnar af yfirborði Plútós eiga að berast annað kvöld að íslenskum tíma. Áður en sambandið við geimfarið var rofið í gær til að það gæti einbeitt sér að vísindastörfum sendi það hins vegar til baka nýjar myndir frá aðfluginu. Það eru bestu myndir sem menn hafa séð af Plútó, þar til á morgun.

Upplausn myndarinnar sem birt var í morgun er fjórir kílómetrar á díl. Alan Stern, aðalvísindamaður New Horizons, sagði á blaðamannafundi í hádeginu að það væri um þúsund sinnum betri upplausn en myndir Hubble-geimsjónaukans af dvergreikistjörnunni. Myndirnar sem berast á morgun verði í tíu sinnum betri upplausn.

Hver mynd sem New Horizons sendir til jarðar er sú …
Hver mynd sem New Horizons sendir til jarðar er sú besta sem tekin hefur verið af Plútó. Hér má sjá hvernig myndin af dvergreikistjörnunni hefur tekið að skýrast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka