Plútó er nú fjarlægasta fyrirbæri sem fulltrúi mannkynsins hefur heimsótt. New Horizons þeytist nú fram hjá Plútó og rannsakar sem mest það má. Ekki liggur fyrir fyrr en í nótt hvort allt gekk að óskum en á meðan halda myndir sem teknar voru fyrir framhjáflugið áfram að berast til jarðar.
Geimfarið verður næst dvergreikistjörnunni rétt fyrir kl. 11:49 að íslenskum tíma og verður þá í aðeins um 12.500 kílómetra fjarlægð frá yfirborðinu. Engin samskipti eiga sér nú stað milli geimfarins og jarðar svo að New Horizons geti eytt öllum sínum kröftum í vísindastörf. Það verður ekki fyrr en eftir miðnætti að íslenskum tíma sem geimfarið sendir fyrsta merkið til jarðar og leiðangursstjórarnir geta áttað sig á hvort allt hafi gengið að óskum.
Gagnaflutningarnir á milli geimfarins og jarðar taka langan tíma enda eru um fimm milljarðar kílómetra á milli þeirra. Því er ekki búist við fyrstu nærmyndunum frá yfirborði Plútós fyrr en annað kvöld að íslenskum tíma.
Í millitíðinni berast hins vegar síðustu myndirnar sem New Horizons tók af Plútó fyrir framhjáflugið sem eru þær skýrustu sem nokkru sinni hafa verið teknar af hnettinum.
Fyrstu vísindaniðurstöður New Horizons liggja þegar fyrir. Geimfarið hefur skorið úr um að Plútó er í raun stærsta fyrirbærið í Kuiper-beltinu svonefnda. Áður lá ekki ljóst fyrir hvor væri stærri, Plútó eða dvergreikistjarnan Eris sem uppgötuvað var fyrir tíu árum.
Plútó reyndist aðeins stærri en menn höfðu talið áður, 2.370 kílómetrar að þvermáli. Ef jörðin væri á stærð við fótbolta væri Plútó þannig á stærð við golfkúlu og stærsta tungl hans, Karon, á við jarðaber, að því er segir á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins.