Það snjóar á Plútó

Allan Stern, aðalvísindamaður New Horizons, (f.m.) var að vonum ánægður …
Allan Stern, aðalvísindamaður New Horizons, (f.m.) var að vonum ánægður þegar geimfarið flaug næst Plútó í hádeginu. AFP

Plútó er klár­lega heim­ur þar sem jarðfræði og and­rúms­loft leika stórt hlut­verk af mynd­un­um sem New Horizons hef­ur sent til jarðar að dæma. Þetta er mat Alan Stern, yf­ir­vís­inda­manns leiðang­urs­ins. Hon­um sýn­ist allt benda til þess að það snjói úr þunn­um loft­hjúpi dverg­reiki­stjörn­unn­ar.

New Horizons flug fram hjá Plútó í há­deg­inu eft­ir níu og hálfs árs og tæp­lega fimm millj­arða kíló­metra ferðalag. Næst komst það kl. 11:48 að ís­lensk­um tíma, var 72 sek­únd­um á und­an áætl­un og flaug 70 kíló­metr­um nær hnett­in­um, ef út­reikn­ing­ar leiðang­urs­stjórn­ar­inn­ar eru rétt­ir. Ekk­ert sam­band er við geim­farið á meðan á fram­hjá­flug­inu stend­ur og er ekki bú­ist við því að merki ber­ist frá því fyrr en rúm­lega eitt í nótt að ís­lensk­um tíma.

Á blaðamanna­fundi banda­rísku geim­vís­inda­stofn­un­ar­inn­ar NASA í eðlis­fræðideild John Hopskins-há­skóla í Mary­land há­deg­inu sagði Stern að geim­farið héldi áfram að afla gagna næsta hálfa sóla­hring­inn. Í nótt muni það síðan senda fyrsta merkið til jarðar og þá hefj­ist sex­tán mánaða tíma­bil þar sem gögn muni foss­ast til jarðar.

Mynd­irn­ar sem New Horizons hef­ur þegar sent sem tekn­ar voru fyr­ir fram­hjá­flugið gefa til kynna að jarðfræðileg vikni og þunn­ur loft­hjúp­ur úr nitri móti yf­ir­borð dverg­reiki­stjörn­unn­ar. Stern sagði að það sæ­ist meðal ann­ars á því hversu mik­ill mun­ur væri á yf­ir­borði Plútós og stærsta tungls­ins Karons.

Yf­ir­borð Karons virt­ist fornt og þakið gíg­um en á Plútó væru fáir loft­steinagíg­ar sjá­an­leg­ir og yf­ir­borðið væri mis­bjart. Það muni skýr­ast þegar frek­ari gögn ber­ast hvort að ástæðan sé sú að Plútó sé enn jarðfræðilega virk­ur hnött­ur eða hvort að það sé loft­hjúp­ur­inn sem fell­ur niður sem snjór þegar hnött­ur­inn er fjærst sólu.

Sem vís­indamaður sagðist Stern hins veg­ar vilja sjá frek­ari gögn, mæl­ing­ar á landa­fræði Plútós, lit­mynd­ir, lit­rófs­grein­ing­ar, hita­kort og mynd­ir í hærri upp­lausn. Mynd­irn­ar sem New Horizons send­ir á morg­un komi til með að vera í tíu sinn­um betri upp­lausn en síðasta mynd­in sem það sendi áður en fram­hjá­flugið hófst.

„Við gæt­um ekki verið ánægðari með hvernig geim­farið hef­ur staðið sig og hvernig Plútó­kerfið hef­ur staðið sig,“ sagði Stern bros­andi.

Eins og að sjá á eft­ir barn­inu sínu

Alice Bowm­an, sem hef­ur stjórnað leiðangri New Horizons frá upp­hafi, líkti til­finn­ing­unni þegar stjórn­end­urn­ir misstu sam­band við geim­farið í nótt við það að sjá á eft­ir barn­inu sínu einu út í heim­inn.

„Ég er ekki búin að sofa mikið. Við í leiðang­urs­stjórn­inni töl­um oft um geim­farið sem barn eða ung­ling. Við misst­um sam­bandið í gær­kvöldi og það var ekk­ert sem neitt okk­ar gat gert fyr­ir geim­farið þá. Aðeins treyst því að við hefðum kennt því allt sem það þyrfti að kunna. Jafn­vel þó að við viss­um að geim­farið myndi ekki tala við okk­ur þá vild­um við vera hjá því á meðan það færi í gegn­um þessa för. Ég er svo­lítið tauga­óstyrk eins og maður er þegar maður send­ir barnið sitt eitt út í heim­inn,“ sagði Bowm­an.

Stern sagði að ef ekk­ert bili í geim­far­inu hafi það næga orku til að vera starf­hæft fram á 4. ára­tug þess­ar­ar ald­ar. Þannig gæti það kannað Kuiper-beltið, sem eru leif­ar frá mynd­un sól­kerf­is okk­ar, og jafn­vel náð út úr sól­kerf­inu út í op­inn geim­inn þaðan sem það gæti sent gögn með næm­ari mæli­tækj­um en Voya­ger-geim­för­in eru búin.

Hann var jafn­framt spurður hvenær menn myndu næst heim­sækja Plútó og grínaðist hann þá með að hafa unnið að smíði lend­ing­ar­fars í laumi. Hann teldi hins veg­ar að menn ættu ör­ugg­lega eft­ir að heim­sækja dverg­reiki­stjörn­una aft­ur vegna þess hversu heill­andi hún væri.

Áður þyrftu menn hins veg­ar að leggj­ast yfir gögn­in sem New Horizons send­ir til baka til að vita hvaða spurn­inga mögu­legt braut­ar- eða lend­ing­ar­far framtíðar­inn­ar ætti að leita svara við. Þá þyrftu menn að finna tækni­leg­ar lausn­ir á því hvernig þeir ætli að láta geim­far staðnæm­ast við Plútó án þess að ferðatím­inn þangað yrði óheyri­lega lang­ur. Ástæða þess að New Horizons flýg­ur aðeins fram hjá Plútó á ógn­ar­hraða er sú að gríðarlega orku þyrfti til að hægja á geim­far­inu og þyngd­ar­kraft­ur Plútós er svo veik­ur að ekki er hægt að nýta hann til þess að draga úr ferðinni.

Alice Bowman, leiðangursstjóri New Horizons.
Alice Bowm­an, leiðang­urs­stjóri New Horizons. NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert