Plútó og Karon eru mun fjölbreyttari heimar en menn höfðu gert sér væntingar um. Yfirborð þeirra eru ung og benda til þess að einhvers konar jarðvirkni eigi sér eða hafi nýlega átt sér stað þar. Þetta er það sem New Horizons-teymið ræður af fyrstu nærmyndunum frá Plútó sem bárust í dag.
Þrjár myndir sem New Horizons tók í flugi sínu fram hjá Plútó og tunglum hans í gær voru birtar á blaðamannafundi vísindateymisins í Johns Hopskins-háskóla nú í kvöld. Óhætt er að segja að vísindamennirnir hafi verið spenntir enda komu myndirnar, sérstaklega af Karoni, þeim í opna skjöldu.
Bein lýsing mbl.is á blaðamannafundinum frá því fyrr í kvöld
Cathy Olkin, reikistjörnufræðingur við New Horizons-teymið, sagði að mynd sem geimfarið tók af Karoni í aðfluginu hafi „sprengt sokkaleistana“ af vísindamönnunum. Dökkt svæði á norðurhvelinu hafi hlotið hið óformlega heiti Mordor, eftir Hringadróttinssögu. Ógurleg gljúfur skeri andlit tunglsins sem gæti verið merki um jarðfræðilega virkni.
„Þetta er lítil veröld með djúpum gljúfrum, lægðum, klettum og lítil svæði sem eru okkur ráðgáta. Það eru svo mikil áhugaverð vísindi á þessari einu litlu mynd,“ sagði Olkin.
Þá var röðin komin að sjálfum Plútó. Myndin sem vísindamennirnir afhjúpuðu af litlum hluta yfirborðsins sýndi fjallgarða, allt að fjögurra kílómetra háa. Þeir séu að öllum líkindum úr vatnsís þar sem ís úr köfnunarefni og kolmónoxíði sé of deigur til að geta myndað fjöll af þessu tagi.
Engir loftsteinagígar voru sjáanlegir á myndinni sem bendir til þess að yfirborðið sé afar ungt. Alan Stern, aðalvísindamaður leiðangursins, sagði að þetta benti til jarðvirkni í iðrum Plútós. Fram að þessu hafi menn talið að jarðhiti og vikni í ístunglum væri tilkominn vegna flóðkrafta sem stórar reikistjörnur hafa á þau. Því væri hins vegar ekki að heilsa á Plútó og fullyrti Stern að flóðkraftar væru ekki orsökin á Plútó.
„Við höfum ekki fundið goshveri og við höfum ekki fundið íseldfjöll,“ sagði Stern en þessar vísbendingar gæfu mönnum tilefni til þess að leita að slíkum fyrirbærum á yfirborði Plútós.
Gögnin sem kynnt voru í kvöld voru aðeins brotabrot af þeim gögnum sem New Horizons mun senda til jarðar og vísindamennirnir hafa aðeins haft örfáa tíma til þess að skoða þær fáu myndir sem eru komnar til jarðar. Því eru allar hugmyndir um hvað valdi því sem virðist virkni á Plútó og Karoni aðeins vangaveltur að svo stöddu.
Það er þó ljóst að þessar fyrstu upplýsingar um Plútókerfið sem menn hafa fengið benda til þess að það mun meira spennandi og framandi en menn hafði órað fyrir. Fleiri myndir og frekari gögn munu halda áfram að berast næstu daga sem munu að líkindum varpa frekara ljósi á þetta fjarlæga og framandi kerfi hnatta.