Fjölbreyttir heimar í fjarska

Fyrsta nærmyndin sem New Horizons sendi til jarðar af yfirborði …
Fyrsta nærmyndin sem New Horizons sendi til jarðar af yfirborði Plútós. Engir gígar eru sjáanlegir á því, aðeins kílómetra há ísfjöll. AFP

Plútó og Karon eru mun fjöl­breytt­ari heim­ar en menn höfðu gert sér vænt­ing­ar um. Yf­ir­borð þeirra eru ung og benda til þess að ein­hvers kon­ar jarðvirkni eigi sér eða hafi ný­lega átt sér stað þar. Þetta er það sem New Horizons-teymið ræður af fyrstu nær­mynd­un­um frá Plútó sem bár­ust í dag.

Þrjár mynd­ir sem New Horizons tók í flugi sínu fram hjá Plútó og tungl­um hans í gær voru birt­ar á blaðamanna­fundi vís­indat­eym­is­ins í Johns Hopskins-há­skóla nú í kvöld. Óhætt er að segja að vís­inda­menn­irn­ir hafi verið spennt­ir enda komu mynd­irn­ar, sér­stak­lega af Karoni, þeim í opna skjöldu.

Bein lýs­ing mbl.is á blaðamanna­fund­in­um frá því fyrr í kvöld

Cat­hy Olk­in, reiki­stjörnu­fræðing­ur við New Horizons-teymið, sagði að mynd sem geim­farið tók af Karoni í aðflug­inu hafi „sprengt sokka­leist­ana“ af vís­inda­mönn­un­um. Dökkt svæði á norður­hvel­inu hafi hlotið hið óform­lega heiti Mor­dor, eft­ir Hringa­drótt­ins­sögu. Ógur­leg gljúf­ur skeri and­lit tungls­ins sem gæti verið merki um jarðfræðilega virkni.

„Þetta er lít­il ver­öld með djúp­um gljúfr­um, lægðum, klett­um og lít­il svæði sem eru okk­ur ráðgáta. Það eru svo mik­il áhuga­verð vís­indi á þess­ari einu litlu mynd,“ sagði Olk­in.

Mynd geimfarsins af Karoni úr aðfluginu. Mikil gljúfur skera yfirborð …
Mynd geim­fars­ins af Karoni úr aðflug­inu. Mik­il gljúf­ur skera yf­ir­borð hnatt­ar­ins sem einnig virðist mun yngra en menn höfðu gert ráð fyr­ir. AFP

Eng­ir flóðkraft­ar sem geta knúið jarðvikni

Þá var röðin kom­in að sjálf­um Plútó. Mynd­in sem vís­inda­menn­irn­ir af­hjúpuðu af litl­um hluta yf­ir­borðsins sýndi fjall­g­arða, allt að fjög­urra kíló­metra háa. Þeir séu að öll­um lík­ind­um úr vatns­ís þar sem ís úr köfn­un­ar­efni og kol­mónoxíði sé of deig­ur til að geta myndað fjöll af þessu tagi.

Eng­ir loft­steinagíg­ar voru sjá­an­leg­ir á mynd­inni sem bend­ir til þess að yf­ir­borðið sé afar ungt. Alan Stern, aðal­vís­indamaður leiðang­urs­ins, sagði að þetta benti til jarðvirkni í iðrum Plútós. Fram að þessu hafi menn talið að jarðhiti og vikni í ístungl­um væri til­kom­inn vegna flóðkrafta sem stór­ar reiki­stjörn­ur hafa á þau. Því væri hins veg­ar ekki að heilsa á Plútó og full­yrti Stern að flóðkraft­ar væru ekki or­sök­in á Plútó. 

„Við höf­um ekki fundið gos­hveri og við höf­um ekki fundið íseld­fjöll,“ sagði Stern en þess­ar vís­bend­ing­ar gæfu mönn­um til­efni til þess að leita að slík­um fyr­ir­bær­um á yf­ir­borði Plútós.

Gögn­in sem kynnt voru í kvöld voru aðeins brota­brot af þeim gögn­um sem New Horizons mun senda til jarðar og vís­inda­menn­irn­ir hafa aðeins haft ör­fáa tíma til þess að skoða þær fáu mynd­ir sem eru komn­ar til jarðar. Því eru all­ar hug­mynd­ir um hvað valdi því sem virðist virkni á Plútó og Karoni aðeins vanga­velt­ur að svo stöddu.

Það er þó ljóst að þess­ar fyrstu upp­lýs­ing­ar um Plútó­kerfið sem menn hafa fengið benda til þess að það mun meira spenn­andi og fram­andi en menn hafði órað fyr­ir. Fleiri mynd­ir og frek­ari gögn munu halda áfram að ber­ast næstu daga sem munu að lík­ind­um varpa frek­ara ljósi á þetta fjar­læga og fram­andi kerfi hnatta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert