Meiriháttar viðgerða er þörf á rafhlöðum sólarknúnu flugvélarinnar Solar Impulse 2. Því mun tilraun flugmanna vélarinnar til að fljúga í kringum jörðina á henni frestast þangað til næsta vor. Rafhlöðurnar ofhitnuðu í fimm daga flugi á milli Japan og Havaí.
Vélin var þegar um hálfnuð að marki sínu og setti flugmaðurinn, hinn svissneski Andre Borschberg, nýtt met í einmenningsflugi þegar hann flaug í 118 klukkustundir yfir Kyrrahafið. Sú flugferð reyndist rafhlöðunum hins vegar um megn. Í yfirlýsingu frá aðstandendum Solar Impulse kemur fram að skemmdirnar séu óafturkræfar og kalli á viðgerðir sem taki mánuði. Síðari helmingur flugsins í kringum jörðina þarf því að bíða þar til næsta vor.
„Við vitum ekki ennþá hvort að við þurfum að skipta um allt eða hvort við getum gert við en við þyrftum sjálf að smíða alla varahluti. Það er ekki eins og við getum pantað þá,“ sagði talskona verkefnisins.