Frosin slétta við ísfjöllin

Unga sléttan hefur hlotið óformlega nafnið Sputnik-sléttan.
Unga sléttan hefur hlotið óformlega nafnið Sputnik-sléttan. NASA/JHUAPL/SWRI

Sól­kerfið geymdi það besta þar til síðast með Plútó. Þetta er hlut­drægt mat Al­ans Stern, aðal­vís­inda­manns New Horizons-leiðang­urs­ins. Ný nær­mynd sem birt hef­ur verið af yf­ir­borði dverg­reiki­stjörn­unn­ar sýn­ir unga og frosna sléttu sem virðist hafa orðið fyr­ir ein­hvers kon­ar veðrun við hlið ís­fjalla.

Ný gögn frá New Horizons voru kynnt á blaðamanna­fundi banda­rísku geim­vís­inda­stofn­un­ar­inn­ar NASA nú síðdeg­is. Jim Green, for­stöðumaður reiki­stjörnu­rann­sókna NASA, sagði að fram að þessu hafi aðeins 1-2% af gögn­um New Horizons borist til jarðar og þær upp­götv­an­ir sem hafa verið gerðar fram að þessu séu aðeins topp­ur­inn á ís­jak­an­um.

Engu að síður hef­ur þetta litla brot gagna gefið heill­andi inn­sýn inn í þá furðuver­öld sem Plútó virðist vera. Stern sagði að New Horizons hefði séð svæðis­bundið lag af kol­mónoxíðís á svæðinu sem nefnt hef­ur verið „hjarta“ Plútós en heit­ir nú óform­lega Tombaugh-svæðið. Sagði hann vís­inda­menn enn ekki skilja or­sök þess. Upp­spretta efna­sam­bands­ins gæti verið á þessu svæði en aðrar skýr­ing­ar væru mögu­leg­ar. Eng­in merki væru um slíka kol­mónoxíðsupp­söfn­un ann­ars staðar á hnett­in­um.

Stern birti þá nýja nær­mynd af fros­inni sléttu sem er rétt við hliðina á ís­fjöll­un­um sem sáust á fyrstu nær­mynd­inni af yf­ir­borði Plútós sem birt var á miðviku­dag. Slétt­an hef­ur fengið vinnu­heitið Spútnik-slétt­an í höfuðið á rúss­neska gervi­tungl­inu. Fjall­g­arður­inn er nú óform­lega kallaður Norgay-fjöll eft­ir skerp­an­um Tenz­ing Norgay sem var fyrsti maður­inn til að klífa Ev­erest-fjall ásamt Ed­mund Hillary. 

Græna svæðið sýnir uppsöfnun kolmónoxíðíss á afmörkuðu svæði Tombaugh-svæðisins á …
Græna svæðið sýn­ir upp­söfn­un kol­mónoxíðíss á af­mörkuðu svæði Tombaugh-svæðis­ins á Plútó. NASA/​JHUAPL/​SWRI

Veðrun­in mögu­lega þurr­guf­un íss­ins

„Lands­lagið er slá­andi furðulegt,“ sagði Jeff Moore, einn vís­inda­manna New Horizons-teym­is­ins. Sum­ir hlut­ar yf­ir­borðs Plútós virt­ust forn­ir þar sem fjölda loft­steinagíga væri að finna. Aðrir virt­ust afar ung­ir eins og Tombaugh-svæðið.

Sum­ir gíg­arn­ir sýni merki um að vera eydd­ir, mögu­lega vegna ein­hvers kon­ar veðrun­ar. Þá virðist skorpa dverg­reiki­stjörn­unn­ar hafa brotnað upp sem bendi til ein­hvers kon­ar jarðvirkni eða fleka­hreyf­inga.

Um slétt­una sem sést á nýju mynd­inni sagðist Moore hafa viljað nefna hana „Erfitt-að-út­skýra“-slétt­una. Hún væri mik­il slétta laus við gíga sem hefði skrýtna sögu að segja. Hún geti ekki verið eldri en hundrað millj­ón ára göm­ul miðað við hversu fáir gíg­ar séu á henni.

„Yf­ir­borðið gæti þess vegna verið vikugam­alt eft­ir því sem við vit­um,“ sagði Moore.

Slétt­an virðist skipt upp í marg­hyrnd svæði með dæld­um dökks efn­is á milli þeirra. Jarðmynd­un­in gæti verið vegna sam­drátt­ar í yf­ir­borðsefn­inu eða iður­strauma. Dul­ar­fyllri væru þyrp­ing­ar hóla sem gætu annað hvort hafa risið upp úr yf­ir­borðinu eða staðið af sér veðrun á meðan slétt­an sjálf væri sorf­in niður. 

Veðrun sem ætti sér stað á Plútó hlyti að vera þurr­guf­un þar sem ís breyt­ist beint í gas eins og þur­rís ger­ir á jörðinni. Moore lagði hins veg­ar áherslu á að rann­sókn­irn­ar væru enn á frum­stigi og vís­inda­menn­irn­ir væru enn að velta fyr­ir sér fjölda kenn­inga.

„Við vit­um að það er stór­hættu­legt að hrapa að álykt­un­um!“ sagði Moore.

Hef­ur tapað fjalli af köfn­un­ar­efnis­ís

Þá kynnti teymið fyrstu niður­stöður um loft­hjúp Plútós. Hann næði mun lengra út en talið hef­ur verið fram að þessu og út fyr­ir braut­ir fylgi­tungl­anna. Ystu lög hans væru úr köfn­un­ar­efni en þegar nær drægi yf­ir­borðinu tæki met­an og loks þyngri kolvatns­efni við.

Þyngd­ar­kraft­ur Plútós er hins veg­ar svo veik­ur að köfn­un­ar­efn­is­sam­eind­irn­ar rjúka út í geim­inn þar sem þær jón­ast við árekstra við sól­vind­inn. Fran Bagenal, einn vís­inda­manna New Horizons-teym­is­ins, sagði að út­reikn­ing­ar þeirra bentu til þess að Plútó glati um 500 tonn­um af efni á klukku­stund með þessu móti. Það þýði að miðað við ald­ur sól­kerf­is­ins hafi hnött­ur­inn tapað jafn­gildi allt að 2,7 kíló­metra fjalls úr niturís.

Fyrsta nærmyndin af hluta yfirborðs tunglsins Karons var birt í …
Fyrsta nær­mynd­in af hluta yf­ir­borðs tungls­ins Karons var birt í gær. NASA-JHUAPL-SwRI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert