Sólkerfið geymdi það besta þar til síðast með Plútó. Þetta er hlutdrægt mat Alans Stern, aðalvísindamanns New Horizons-leiðangursins. Ný nærmynd sem birt hefur verið af yfirborði dvergreikistjörnunnar sýnir unga og frosna sléttu sem virðist hafa orðið fyrir einhvers konar veðrun við hlið ísfjalla.
Ný gögn frá New Horizons voru kynnt á blaðamannafundi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA nú síðdegis. Jim Green, forstöðumaður reikistjörnurannsókna NASA, sagði að fram að þessu hafi aðeins 1-2% af gögnum New Horizons borist til jarðar og þær uppgötvanir sem hafa verið gerðar fram að þessu séu aðeins toppurinn á ísjakanum.
Engu að síður hefur þetta litla brot gagna gefið heillandi innsýn inn í þá furðuveröld sem Plútó virðist vera. Stern sagði að New Horizons hefði séð svæðisbundið lag af kolmónoxíðís á svæðinu sem nefnt hefur verið „hjarta“ Plútós en heitir nú óformlega Tombaugh-svæðið. Sagði hann vísindamenn enn ekki skilja orsök þess. Uppspretta efnasambandsins gæti verið á þessu svæði en aðrar skýringar væru mögulegar. Engin merki væru um slíka kolmónoxíðsuppsöfnun annars staðar á hnettinum.
Stern birti þá nýja nærmynd af frosinni sléttu sem er rétt við hliðina á ísfjöllunum sem sáust á fyrstu nærmyndinni af yfirborði Plútós sem birt var á miðvikudag. Sléttan hefur fengið vinnuheitið Spútnik-sléttan í höfuðið á rússneska gervitunglinu. Fjallgarðurinn er nú óformlega kallaður Norgay-fjöll eftir skerpanum Tenzing Norgay sem var fyrsti maðurinn til að klífa Everest-fjall ásamt Edmund Hillary.
„Landslagið er sláandi furðulegt,“ sagði Jeff Moore, einn vísindamanna New Horizons-teymisins. Sumir hlutar yfirborðs Plútós virtust fornir þar sem fjölda loftsteinagíga væri að finna. Aðrir virtust afar ungir eins og Tombaugh-svæðið.
Sumir gígarnir sýni merki um að vera eyddir, mögulega vegna einhvers konar veðrunar. Þá virðist skorpa dvergreikistjörnunnar hafa brotnað upp sem bendi til einhvers konar jarðvirkni eða flekahreyfinga.
Um sléttuna sem sést á nýju myndinni sagðist Moore hafa viljað nefna hana „Erfitt-að-útskýra“-sléttuna. Hún væri mikil slétta laus við gíga sem hefði skrýtna sögu að segja. Hún geti ekki verið eldri en hundrað milljón ára gömul miðað við hversu fáir gígar séu á henni.
„Yfirborðið gæti þess vegna verið vikugamalt eftir því sem við vitum,“ sagði Moore.
Sléttan virðist skipt upp í marghyrnd svæði með dældum dökks efnis á milli þeirra. Jarðmyndunin gæti verið vegna samdráttar í yfirborðsefninu eða iðurstrauma. Dularfyllri væru þyrpingar hóla sem gætu annað hvort hafa risið upp úr yfirborðinu eða staðið af sér veðrun á meðan sléttan sjálf væri sorfin niður.
Veðrun sem ætti sér stað á Plútó hlyti að vera þurrgufun þar sem ís breytist beint í gas eins og þurrís gerir á jörðinni. Moore lagði hins vegar áherslu á að rannsóknirnar væru enn á frumstigi og vísindamennirnir væru enn að velta fyrir sér fjölda kenninga.
„Við vitum að það er stórhættulegt að hrapa að ályktunum!“ sagði Moore.
Þá kynnti teymið fyrstu niðurstöður um lofthjúp Plútós. Hann næði mun lengra út en talið hefur verið fram að þessu og út fyrir brautir fylgitunglanna. Ystu lög hans væru úr köfnunarefni en þegar nær drægi yfirborðinu tæki metan og loks þyngri kolvatnsefni við.
Þyngdarkraftur Plútós er hins vegar svo veikur að köfnunarefnissameindirnar rjúka út í geiminn þar sem þær jónast við árekstra við sólvindinn. Fran Bagenal, einn vísindamanna New Horizons-teymisins, sagði að útreikningar þeirra bentu til þess að Plútó glati um 500 tonnum af efni á klukkustund með þessu móti. Það þýði að miðað við aldur sólkerfisins hafi hnötturinn tapað jafngildi allt að 2,7 kílómetra fjalls úr niturís.