„Hálfsjálfkeyrandi“ Benz á Íslandi

Bílar sem keyra sig sjálfir eru ekki lengur á mörkum vísindaskáldskapar og raunveruleikans. Google hefur þegar kynnt til sögunnar bíl sem getur við ákveðnar aðstæður keyrt án aðkomu ökumanns.

Fyrirtækið Delphi útbjó Audi SQ5 þannig að hann gat sjálfur keyrt þvert yfir Bandaríkin, leiðina frá Golden Gate brúnni í San Francisco til Manhattan í New York. Bílinn ók gegnum 15 borgir og var að sögn talsmanna fyrirtækisins við stjórnvölin í 99% tilvika.

Árið 2013 ók svo bíll frá Mercedes Benz sjálfur leiðina frá Manheim til Pofrtzheim - sömu leið og Bertha Benz ók árið 1888 í fyrstu löngu ökuferð sögunnar.

„Hálfsjálfkeyrandi“ bílar á markaði

Allt hafa þetta verið einhvers konar tilraunabílar, sem eru ekki aðgengilegir almenningi. Enn sem komið er getum við ekki sest upp í bíl, stimplað inn áfangastað og beðið bílinn vinsamlegast um að skila okkur þangað með sem bestum hætti.

Sú þróun er hins vegar löngu hafin. Askja, umboðsaðili Mercedes Benz á Íslandi, fékk nýlega S-Class bíl, flaggskip Mercedes Benz, sem er búinn öllum þeim tækjabúnaði sem í boði er fyrir almenning sem færir bílinn í áttina að því að keyra sjálfur.

Blaðamaður mbl.is fékk að prófa þennan lúxusbíl, sem er búinn tækjum sem í hugum margra virðast tilheyra framtíðinni, en eru ört að ryðja sér til rúms í nýjum bílum. Þumalputtareglan með S-Class er að sá búnaður sem í honum er verður orðinn algengur í venjulegum fólksbílum innan nokkurra ára. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, segir að á næstu 10 árum megum við búast við meiri breytingum á bílnum og bílaiðnaðnum en orðið hafa á síðustu 100 árum.

Frá Kjalarnesi í Árbæ án þess að snerta pedalana

Við ókum bílnum frá Öskju út á Kjalarnes, þar sem ég fékk að setjast í bílstjórasætið. Skemmst frá því að segja steig ég hvorki á bensíngjöfina eða bremsuna frá því við tókum af stað á Kjalarnesi þangað til við nunum staðar rétt hjá Hádegismóum. Á þeim kafla sá bíllinn um allar hraðabreytingar, bæði í frekar þungum akstri á stofnbrautum og í gegnum hringtorg. Það var skrýtin upplifun.

Til að geta nýtt allan þann öryggisbúnað sem bíllinn býr yfir þurfa yfirborðsmerkingar á götum að vera mjög góðar. Línur í vegaköntum og á milli akreina þurfa til að mynda að vera vel málaðar og sýnilegar. Ökumaður bílsins þarf þó að vera fullkomlega með á nótunum, því hann þarf enn að halda um stýrið og geta gripið inn í ef eitthvað óvænt gerist.

Eins og kom fram í viðtali mbl.is við Ralf Herrtwich, þróunarstjóra öryggismála og sjálfkeyrandi búnaðar, er stefna fyrirtækisins að bílar þess muni á endanum geta séð um allan akstur fyrir ökumanninn, sem þó hefði þess kost að aka sjálfur ef hann vill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert