Fjallgarður á mörkum tveggja heima

Fjöllin liggja á mörkum tveggja gerólíkra svæða.
Fjöllin liggja á mörkum tveggja gerólíkra svæða. AFP

New Horizons hefur fundið nýjan fjallgarð á dvergreikistjörnunni Plútó sem liggur á mörkum tveggja gerólíkra svæða. Fjöllin eru á ungu og ljósu landsvæði sem er mun yngra en dökkt svæði beint við hliðina sem er alsett loftsteinagígum.

Fjallgarðurinn er í suðvesturhluta mest áberandi kennileitis Plútós, hjartalaga svæðis sem hefur óformlega fengið nafnið Tombaugh-svæðið. Fjöllin eru lægri en þau sem sáust á fyrstu nærmyndinni sem New Horizons sendi til baka eftir að geimfarið flaug fram hjá Plútó 14. júlí. Þau eru talin vera um 1-1,5 kílómetra að hæð. Norgay-fjöll sem sáust á fyrstu myndinni eru töluvert hærri, allt að fjórir kílómetrar að hæð. Um 110 kílómetrar skilja að fjallgarðana tvo.

„Það er mikill munur á áferð yngri, frosnu sléttanna í austri og dökka, gígum þakta svæðisins til vesturs. Það er flókin milliverkun sem á sér stað á milli ljósu og dökku efnanna sem við erum enn að reyna að átta okkur á,“ segir Jeff Moore, yfirmaður jarðfræði, jarðeðlisfræði og myndateyma New Horizons-leiðangursins.

Hin ljósa Spútnikslétta er líklega aðeins um 100 milljón ára gömul en dökka svæðið við hliðina á henni er líklega milljarða ára gömul. Mynd New Horizons var tekin með LORRI-myndavél geimfarsins úr 77.000 kílómetra fjarlægð.

Þá hefur bandaríska geimvísindastofnunin NASA birt fyrstu tiltölulega skýru myndirnar af tunglunum Nix og Hýdru. Þau fundust í fyrsta skipti með Hubble-geimsjónaukanum árið 2005. Bæði tunglin eru lítil. Hýdra er 55 kílómetrar að lengd en Nix 42 kílómetrar að lengd og 36 kílómetrar að breidd. 

Frétt á vef NASA um nýja fjallgarðinn á Plútó

Tunglin Nix (t.v.) og Hýdra (t.h.).
Tunglin Nix (t.v.) og Hýdra (t.h.). AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka