Fundu alvarlegan galla í Android

Gallinn getur opnað aðgang að gögnum og forritum án aðkomu …
Gallinn getur opnað aðgang að gögnum og forritum án aðkomu eiganda snjalltækisins. AFP

Galli í snjalltækjastýrikerfinu Android hefur verið uppgötvaður af rannsakendum, sem segja að hann hrjái næstum milljarð snjalltækja. Hægt er að notfæra sér gallann með því að senda mynd eða myndskeið í snjallsíma viðkomandi, án þess að hann þurfi nokkuð að aðhafast.

Framleiðandi stýrikerfisins, Google, segist hafa lagað vandann með nýrri uppfærslu, en milljónir tækja hafa enn ekki verið uppfærð af eigendum sínum.

Rannsakendurnir, sem eru á vegum bandaríska öryggisfyrirtækisins Zimpherium, segja gallann fela í sér gríðarlega hættu og að hann sé með verstu dæmum um varnarleysi stýrikerfisins til þessa, en talið er að um 950 milljónir tækja séu enn háð gallanum.

Tölvuþrjótar geta sent kóða falinn í MMS-skilaboðum, sem veitir svo aðgang að forriti innan Android sem kallast Stagefright. Eftir að Stagefright hefur verið gangsett, sem krefst engrar aðkomu eiganda tækisins, geta önnur gögn og forrit verið opin fyrir þeim sem sendi kóðann.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins fjallar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert