Google neitar að „gleyma“

Google vill ekki gleyma.
Google vill ekki gleyma. AFP

Google hafnaði í dag kröfu franskra yfirvalda um að fyrirtækið láti „réttinn til að gleymast“ ná til allra notenda sinna, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Um er að ræða evrópska ákvörðun, sem skyldar fyrirtækið til að fjarlægja tengla ef notendur fara fram á það.

„Þrátt fyrir að rétturinn til að gleymast sé nú lög í Evrópu, er ekki um að ræða alþjóðlög,“ sagði lögmaður Google á sviði persónuverndar í bloggfærslu.

Sú stofnun Frakklands sem hefur umsjón með gagnaöryggi, CNIL, hafði farið þess á leit að Google framfylgdi úrskurði Evrópudómstólsins um réttinn til að gleymast á heimsvísu, en hann á við þegar um er að ræða „ónákvæmar, ófullnægjandi, óviðkomandi eða óhóflegar“ upplýsingar.

Í bloggfærslunni sagði að beiðni Frakka væri uggandi þróun. Ef nálgun CNIL yrði ofan á yrði internetið aðeins jafn frjálst og ófrjálsasti staður á jörðu.

Samkvæmt Google hefur fyrirtækið meðhöndlað 250.000 beiðnir um að fjarlægja tengla frá því að úrskurður var kveðinn upp í maí á síðasta ári. Hann er umdeildur; forsvarsmenn Wikipedia hafa sagt að hann muni gera það að verkum að glompur myndist á vefnum, á meðan gagnrýnendur Google segja úrræði af þessu tagi nauðsynlegt til að standa vörð um friðhelgi einkalífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert