Konan sem bjargaði Bandaríkjunum frá thalidomide

Frances Oldham Kelsey
Frances Oldham Kelsey Af vef Wikipedia

Frances Oldham Kelsey, kanadíski læknirinn sem gegndi lykilhlutverki í að koma í veg fyrir að lyfið thalidomide væri gefið verðandi mæðrum á meðgöngu, er látin 101 árs að aldri. 

Kelsey, sem starfaði sem sérfræðingur hjá bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) á sjötta áratug síðustu aldar, neitaði að veita samþykki fyrir notkun lyfsins í Bandaríkjunum. Thalidomide var álitið töfralyf sem gæti komið í veg fyrir morgunógleði meðal þungaðra kvenna. Í ljós kom að afleiðingar lyfsins voru skelfilegar, þúsundir barna létust og fleiri fæddust vansköpuð vegna lyfsins. 

Kelsey lést í Ontario í gær og var dóttir hennar, Christine Kelsey, hjá móður sinni er hún lést, samkvæmt frétt BBC.

Kelsey er álitin hetja meðal fjölmarga Bandaríkjamanna fyrir að hafa dregið í efa öryggi lyfsins og komið í veg fyrir að það yrði markaðssett þar í landinu.Fram kemur í frétt BBC að hún hafi gengið hart fram í því að fá frekari upplýsingar frá lyfjaframleiðandanum sem kvartaði sáran yfir þessari konu sem lét hana ekki í friði. 

Þökk sé henni þá var lyfið ekki samþykkt í Bandaríkjunum og veitti John F Kennedy, þáverandi forseti Bandaríkjanna, heiðursviðurkenningu fyrir þjónustu í þágu almennings í landinu.

Samkvæmt Washington Post létust þúsundir barna í móðurkviði eftir að mæðurnar tóku lyfið til þess að draga úr morgunógleði á meðgöngu. Að minnsta kosti 10 þúsund börn fæddust vansköpuð í 46 löndum á þeim tíma sem lyfið var í umferð. Meðal annars vantaði á þau fætur, eða hendur eða í stað táa voru þau með selshreifa. Í mörgum tilvikum voru börnin blind, heyrnarlaus ofl.

Árið 1961 uppgötvuðu vísindamenn ástæðuna fyrir fæðingargöllum barnanna, thalidomide - lyf sem fyrstu árin var markaðssett sem töfralyf við morgunógleði og svefnleysi. 

Að mestu leyti tókst að koma í veg fyrir harmleik í Bandaríkjunum og þakkar bandaríska þjóðin það staðfestu Frances Oldham Kelsey sem hafði ekki trú á lyfinu og taldi að ekki ætti að heimila það fyrr en það hefði verið rannsakað frekar. Í nítján mánuði tókst henni að koma í veg fyrir að það fengist skráð í Bandaríkjunum. Að launum var hún harðlega gagnrýnd af lyfjaframleiðendum fyrir að vera baunateljari á vegum hins opinbera af verstu gerð.

Afleiðingar thalidomide
Afleiðingar thalidomide Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert