Stóraukin virkni við sólnánd

Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko eins og hún kom fyrir sjónir Rosettu örfáum …
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko eins og hún kom fyrir sjónir Rosettu örfáum klukkustundum áður en hún náði sólnánd. AFP

Könnunarfarið Rosetta var í nótt samferða halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko þegar hún komst næst sólu á sporbraut sinni. Eftir því sem halastjarnan hefur nálgast sólina hefur virkni hennar stóraukist. Nú gjósa hundruð kílóa vatnsgufu upp af yfirborðinu á hverri sekúndu sem myndar hala hennar.

Sólnánd er það kallað þegar hnettir og önnur fyrirbæri sem ganga á braut um sólina eru næst henni. 67P komst næst sólinni kl. 02:03 í nótt og var þá í innan við 186 milljón kílómetra fjarlægð frá henni á milli brauta jarðarinnar og Mars. Til samanburðar er jörðin í um 150 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni.

Á því ári sem liðið er frá því að Rosetta kom fyrst að halastjörnunni hefur hún ferðast um 750 milljón kílómetra eftir braut sinni um sólina. Ísilagt yfirborð halastjörnunnar sleppur frá henni sem gas þegar það gufar upp eftir því sem geislar sólarinnar verða sterkari þegar hún nálgast sólnánd. Þessar gastegundir mynda hala hennar og andrúmsloft.

Úr tveimur vatnsglösum í tvö baðker af vatni á sekúndu

Þessi virkni nær hámarki sínu í kringum sólnánd og hefur Rosetta verið í kjörstöðu til þess að fylgjast með sjónarspilinu. Mælingar geimfarsins benda til þess að nú gjósi um 300 kíló af vatnsgufu upp af yfirborði halastjörnunnar á hverri sekúndu sem er gróflega svipað og tvö baðker full af vatni. Til samanburðar nam þessi upp uppgufun aðeins 300 grömmum á sekúndu þegar Rosetta kom fyrst að halastjörnunni í ágúst í fyrra. Það er sambærilegt við tvö lítil vatnsglös.

„Virknin verður áfram mikil í líkingu við þetta í margar vikur og við hlökkum sannarlega til þess að sjá hversu marga stróka og gos við náum að fanga eins og við höfum þegar orðið vitni að undanfarnar vikur,“ segir Nicolas Altobelli, vísindamaður við Rosetta-leiðangurinn.

Til viðbótar við gasið er áætlað að um eitt tonn af ryki losni frá kjarna halastjörnunnar á sekúndu sem gerir starfsskilyrði Rosettu nokkuð varasöm. Undanfarna daga hafa stjórnendur geimfarsins neyðst til þess að færa það fjær halastjörnunni af þessum sökum. Það er nú í um 325-340 kílómetra fjarlægð frá henni. Það er nauðsynlegt til þess að siglingartæki Rosettu geti starfað sem skyldi án truflana frá rykinu.

Frétt á vef evrópsku geimstofnunarinnar ESA um sólnánd halastjörnunnar

Rosetta hefur myndað fjölda stróka og gosa gass og ryks …
Rosetta hefur myndað fjölda stróka og gosa gass og ryks frá halastjörnunni eftir því sem hún hefur nálgast sólina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert