Gæðir framhjáflugið lífi

New Horizons flaug fram hjá Plútó 14. júlí.
New Horizons flaug fram hjá Plútó 14. júlí. AFP

Mánuður er nú liðinn frá því að New Horizons flaug næst fram hjá Plútó og hefur farið þegar sent nokkuð magn mynda aftur til jarðar. Íslenski tölvunarfræðingurinn Björn Jónsson hefur skeytt þessum myndum saman í stutta þrívíddarkvikmynd sem sýnir framhjáflugið á nokkuð raunverulegan hátt.

Í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins kemur fram að þrívíddarkvikmyndin byggi á gögnum frá geimfarinu, meðal annars um lofthjúp Plútós sem sést sem nokkurs konar geislabaugur um hnöttinn í lok myndskeiðsins, og hún eigi því að vera nokkuð raunveruleg.

Í lýsingu Björns á myndinni á myndbandasíðunni Vimeo kemur fram að ljós sem endurkastast frá tunglinu Karoni lýsi að hluta upp næturhlið Plútós en sú birta sé ýkt í myndinni. Í raunveruleikanum væri næturhliðin varla greinanleg eða jafnvel ekki.

Björn hefur töluvert fengist við vinnslu á myndum könnunargeimfara af sólkerfinu okkar. Þannig hefur hann meðal annars gert einhverjar skýrustu myndir sem til eru af stóra rauða blettinum á Júpíter og lofthjúpi Úranusar auk þess að vinna líklega nákvæmasta kort sem til er af yfirborði ístunglsins Evrópu.

New Horizons Pluto flyby from Bjorn Jonsson on Vimeo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka