Svarthol ekki „eilíf fangelsi“

Stephen Hawking.
Stephen Hawking. AFP

Breski heims­fræðing­ur­inn Stephen Hawk­ing kynnti nýj­ar hug­mynd­ir sín­ar um svart­hol á ráðstefnu vís­inda­manna í Stokk­hólmi í gær. Sagði hann svart­hol­in ekki eins svört og af hef­ur verið látið og efni gæti hugs­an­lega sloppið út úr þeim, á óþekkj­an­legu formi þó.

Hawk­ing var einn þeirra sér­fræðinga sem talaði á ráðstefnu Kon­ung­legu tækni­stofn­un­ar­inn­ar í Stokk­hólmi í gær. Al­mennt hugsa menn um svart­hol þannig að ekk­ert efni sem einu sinni hef­ur farið inn fyr­ir sjón­deild (e. Event horizon) þeirra sleppi nokkru sinni út, ekki einu sinni ljós, vegna gríðarlegs þyngd­ar­krafts þeirra.

Áður hef­ur Hawk­ing sett fram kenn­ingu um að svart­hol sendi frá sér geisl­un sem nefnd hef­ur verið Hawk­ing-geisl­un án þess að skilið hafi verið að fullu hvernig hún eigi sér stað. Í er­indi sínu í gær beindi Hawk­ing sjón­um sín­um að því sem nefnt hef­ur verið upp­lýs­ingaþver­sögn­in (e. In­formati­on para­dox). Sam­kvæmt lög­mál­um skammta­fræðinn­ar geta upp­lýs­ing­ar, efni, aldrei horfið, jafn­vel þó þær falli inn í svart­hol. Talið er að þetta sé óbreyt­an­legt nátt­úru­lög­mál sem nú­ver­andi hug­mynd­ir um svart­hol virðast þó vera í þver­sögn við.

„Skila­boð þessa fyr­ir­lestr­ar eru að svart­hol séu ekki eins svört og þau hafa verið út­máluð. Þau eru ekki þessi ei­lífu fang­elsi sem við töld­um þau vera. Hlut­ir geta komið út um svart­hol, bæði út um þau og mögu­lega inn í ann­an al­heim,“ sagði Hawk­ing í er­indi sínu.

Eins og að brenna al­fræðiorðabók

Stakk hann upp á því að upp­lýs­ing­ar efn­is­ins sem fell­ur inn í svart­hol séu ekki varðveitt­ar í innviðum þeirra held­ur verði merki um þær eft­ir í sjón­deild svart­hols­ins. Efnið komi svo aft­ur út í formi Hawk­ing-geisl­un­ar og varðveit­ist þannig, tækni­lega séð. Upp­lýs­ing­arn­ar um agn­irn­ar sem féllu inn væru hins veg­ar óreiðukennd­ar og gagns­laus­ar.

Líkti Hawk­ing þessu við það að brenna al­fræðiorðabók. Ef maður geymdi ösk­una alla á ein­um stað myndi hann tækni­lega ekki tapa nein­um upp­lýs­ing­um. Það gæti þó reynst þraut­inni þyngra að fletta upp höfuðborg Minnesota-rík­is.

Hug­mynd­un­um sem Hawk­ing kynnti svip­ar til kenn­inga sem Nó­bels­verðlauna­haf­inn Ger­ard t'Hooft setti fram und­ir lok síðustu ald­ar en hann var einn áheyr­anda á er­indi Hawk­ing. Eft­ir á að koma í ljós hvernig hug­mynd­ir Hawk­ing eru frá­brugðnar þeim kenn­ing­um og hvort að hon­um hafi tek­ist að kom­ast yfir vanda­mál­in við þær.

Frétt Washingt­on Post af er­indi Hawk­ing

Frétt banda­ríska rík­is­út­varps­ins NPR

Teikning listamanns af umhverfi dæmisgerðs risasvarthols en þau er að …
Teikn­ing lista­manns af um­hverfi dæm­is­gerðs risa­svart­hols en þau er að finna í miðju vetr­ar­brauta. ESO/​L. Calçada
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert