Breski heimsfræðingurinn Stephen Hawking kynnti nýjar hugmyndir sínar um svarthol á ráðstefnu vísindamanna í Stokkhólmi í gær. Sagði hann svartholin ekki eins svört og af hefur verið látið og efni gæti hugsanlega sloppið út úr þeim, á óþekkjanlegu formi þó.
Hawking var einn þeirra sérfræðinga sem talaði á ráðstefnu Konunglegu tæknistofnunarinnar í Stokkhólmi í gær. Almennt hugsa menn um svarthol þannig að ekkert efni sem einu sinni hefur farið inn fyrir sjóndeild (e. Event horizon) þeirra sleppi nokkru sinni út, ekki einu sinni ljós, vegna gríðarlegs þyngdarkrafts þeirra.
Áður hefur Hawking sett fram kenningu um að svarthol sendi frá sér geislun sem nefnd hefur verið Hawking-geislun án þess að skilið hafi verið að fullu hvernig hún eigi sér stað. Í erindi sínu í gær beindi Hawking sjónum sínum að því sem nefnt hefur verið upplýsingaþversögnin (e. Information paradox). Samkvæmt lögmálum skammtafræðinnar geta upplýsingar, efni, aldrei horfið, jafnvel þó þær falli inn í svarthol. Talið er að þetta sé óbreytanlegt náttúrulögmál sem núverandi hugmyndir um svarthol virðast þó vera í þversögn við.
„Skilaboð þessa fyrirlestrar eru að svarthol séu ekki eins svört og þau hafa verið útmáluð. Þau eru ekki þessi eilífu fangelsi sem við töldum þau vera. Hlutir geta komið út um svarthol, bæði út um þau og mögulega inn í annan alheim,“ sagði Hawking í erindi sínu.
Stakk hann upp á því að upplýsingar efnisins sem fellur inn í svarthol séu ekki varðveittar í innviðum þeirra heldur verði merki um þær eftir í sjóndeild svartholsins. Efnið komi svo aftur út í formi Hawking-geislunar og varðveitist þannig, tæknilega séð. Upplýsingarnar um agnirnar sem féllu inn væru hins vegar óreiðukenndar og gagnslausar.
Líkti Hawking þessu við það að brenna alfræðiorðabók. Ef maður geymdi öskuna alla á einum stað myndi hann tæknilega ekki tapa neinum upplýsingum. Það gæti þó reynst þrautinni þyngra að fletta upp höfuðborg Minnesota-ríkis.
Hugmyndunum sem Hawking kynnti svipar til kenninga sem Nóbelsverðlaunahafinn Gerard t'Hooft setti fram undir lok síðustu aldar en hann var einn áheyranda á erindi Hawking. Eftir á að koma í ljós hvernig hugmyndir Hawking eru frábrugðnar þeim kenningum og hvort að honum hafi tekist að komast yfir vandamálin við þær.