Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur nú valið næsta áfangastað New Horizons í Kuiper-beltinu eftir vel heppnaða heimsókn geimfarsins til Plútó í júlí. Fyrirbærið 2014 MU69 varð fyrir valinu og á geimfarið að koma þangað á nýársdag árið 2019. Ekkert er vitað um hnöttinn utan stærðar hans.
Vísindamennirnir fundu 2014 MU69 með Hubble-geimsjónaukanum þegar þeir leituðu að mögulegum áfangastöðum fyrir New Horizons eftir Plútó. Það var aðallega hentugleiki sem réði valinu enda vita vísindamenn lítið sem ekkert um fyrirbærin sem liggja utan við braut Plútós. New Horizons mun brenna minna af eldsneyti til að komast til 2014 MU69 en til annars hnattar sem kom til greina og varð því fyrir valinu.
Stjórnendur geimfarsins munu gagnsetja vélar þess nokkrum sinnum í seinni hluta október til þess að koma því á rétta braut til hnattarins. Stefnubreytingin mun brenna um tólf kílóum af þeim 35 kílóum eldsneytis sem eftir eru um borð.
New Horizons mun þjóta fram hjá hnettinum í um 12.000 kílómetra fjarlægð frá yfirborði hans. Það er um það bil sama fjarlægð og geimfarið komst næst Plútó 14. júlí.
Kuiper-beltið er ísilagður afgangur efnis frá myndun sólkerfisins að því er vísindamenn telja. Það eina sem vitað er um 2014 MU69 á þessari stundu er að fyrirbærið er um 45 kílómetrar að þvermáli.