Bestu myndirnar af Plútó á leiðinni

Loftnetsstöðvar Deep Space Network NASA taka nú á móti gögnunum …
Loftnetsstöðvar Deep Space Network NASA taka nú á móti gögnunum frá New Horizons í Madrid á Spáni, Goldstone í Kaliforníu og Canberra í Ástralíu. NASA

Sjö vikum eftir að New Horizons flaug fram hjá Plútó byrjaði geimfarið fyrir alvöru að senda gögn til jarðar um athuganir sínar um helgina. Þar á meðal eru fleiri myndir sem það tók af Plútó og tunglum hans í nærfluginu. Áætlað er að fyrstu nýju myndirnar verði birtar í lok þessarar viku.

Fram að þessu hefur New Horizons  aðeins sent fyrirferðarminni gögn frá mælitækjum sem nema jónir, sólvind og geimryk. Um helgina byrjaði farið hins vegar að senda fyrirferðarmeiri gagnapakka eins og nærmyndir og fleiri gögn, að því er kemur fram í frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

„Þetta er það sem við komum til að ná, þessar myndir, litrófsmælingar og önnur gögn sem munu hjálpa okkur að skilja uppruna og þróun Plútókerfisins í fyrsta skipti. Það sem er væntanlegt eru ekki bara þau 95% gagnanna sem enn eru eftir í geimfarinu heldur myndirnar sem eru í mestu upplausninni og litrófsmælingarnar, mikilvægustu upplýsingarnar um lofthjúpinn og fleira. Þetta er fjársjóður,“ segir Alan Stern, yfirvísindamaður New Horizons-leiðangursins.

Þolinmæði er þörf hjá þeim sem taka á móti gögnunum en gagnaflutningarnir yfir þá tæpu fimm milljarðar kílómetra sem skilja New Horizons og jörðina að eru heldur hægir. Þannig nær geimfarið að senda á bilinu 1-4 kílóbit á sekúndu að meðaltali. Þó að merkið ferðist á ljóshraða tekur það meira en fjóra og hálfa klukkustund að ná til jarðarinnar.

Áætlað er að óunnar myndir frá LORRI-myndavél könnunarfarsins verði áfram birtar á vefsíðu New Horizons á hverjum föstudag frá og með þeim næsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka