Nýjar nærmyndir af yfirborði Plútós sem New Horizons hefur skilað til jarðar sýna landslag sem er fjölbreytt og flókið sem hefur vakið undrun vísindamanna. Alan Stern, yfirvísindamaður leiðangursins, segir að ef listamaður hefði teiknað Plútó á þennan hátt fyrir framhjáflugið hefði það verið taldar ýkjur.
Vísindamennirnir birtu í gær fyrsta skammtinn af nýjum myndum sem New Horizons byrjaði að senda til jarðar um síðustu helgi frá framhjáfluginu 14. júlí. Von er á fleiri myndum og tunglum Plútós í dag. Með þeim myndum sem hafa borist undanfarna daga hefur það svæði sem menn eiga nú myndir af í hárri upplausn margfaldast að stærð.
Myndirnar sýna meðal annars streymi köfnunarefnisíss sem virðist hafa runnið frá fjallgörðum yfir sléttur, mögulegar öldur í yfirborðsefninu og dali sem flæðandi efni gæti hafa sorfið í yfirborðið. Þá birtist einnig hrærigrautur fjalla á víð og dreif sem minnir á yfirborð Galíleiótunglsins Evrópu.
„Plútó sýnir okkur fjölbreytileika í jarðmyndunum og flókna virkni sem jafnast fyllilega á við allt sem við höfum séð í sólkerfinu,“ sagði Stern í gær.
Jeff Moore, yfirmaður jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsókna og myndateymis New Horizons, tekur undir þetta.
„Yfirborð Plútós er alveg jafnflókið og Mars. Þessi fjöll sem eru í einum hrærigraut gætu verið risavaxnar blokkir harðs vatnsíss sem flýtur inn á milli víðáttumikilla, þéttari og mýkri laga af köfnunarefnisís innan svæðisins sem nefnist óformlega Spútniksléttan,“ segir Moore.
Vísindamennirnir hafa ennfremur komið auga á fyrirbæri sem líkjast sandöldum. Reynist það vera rétt segja þeir að það bendi til þess að annað hvort hafi lofthjúpur Plútós verið þykkari í fortíðinni en hann er núna eða einhvers konar önnur virkni sé þar að verki sem menn hafa enn ekki náð að átta sig á.
Myndirnar sýna líka að mun fleiri lög eru í mistrinu eða lofthjúpnum sem umlykur Plútó en vísindamenn höfðu talið. Það veldur nokkurs konar ljósaskiptaáhrifum þar sem næturhliðin lýsist örlítið upp við sólsetur sem gerði hana sýnilega myndavélum New Horizons.