Vísindamenn NASA hafa fundið vísbendingar um að vatn fljóti niður hlíðar gljúfra og gíga á yfirborði Mars yfir sumarmánuðina þar. Þeir segja að uppgötvunin auki möguleikana á því að reikistjarnan gæti hýst einhverja tegund af lífi. Uppspretta vatnsins er enn sem komið er óþekkt.
Beðið hefur verið eftir tilkynningu frá NASA frá því að stofnunin tilkynnti fyrir helgi að stofnunin myndi kynna nýja og meiriháttar vísindauppgötvun sem gerð var með brautarfarinu Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) í dag.
Myndir sem MRO hefur tekið frá braut um Mars sýna dökkar rákir í bröttum hlíðum sem teygja sig sums staðar hundruð metra niður í hlýjustu mánuðum ársins sem gufa svo upp þegar kólnar með haustinu. Talið er að rennandi saltvatn myndi þessar dökku rásir.
„Það er fljótandi vatn á yfirborði Mars í dag. Af þessum sökum grunar okkar að það sé að minnsta kosti mögulegt að það geti verið lífvænlegt umhverfi þar í dag,“ segir Michael Meyer, yfirmaður Marsrannsókna NASA við breska blaðið The Guardian.
Ekki liggur fyrir hvaðan vatnið kemur en vísindamennirnir telja að það gæti vætlað upp úr ís undir yfirborðinu eða veitum eða hreinlega fallið úr þunnum lofthjúpi reikistjörnunnar.
„Hvaðan vatnið kemur er enn ráðgáta. Það hlýtur að koma annað hvort úr andrúmsloftinu eða jarðveginum eða hvoru tveggja, í gegnum ís grunnt undir jarðveginum, en báðar hugmyndir hafa sína galla,“ segir Alfred McEwan, einn aðalhöfunda rannsóknarinnar.
Fundurinn hefur mikla þýðingu fyrir frekari rannsóknir manna á yfirborði Mars. Staðirnir þar sem rákirnar sjást gætu verið þeir vænlegustu til þess að leita merkja um líf á reikistjörnunnni og jafnvel fyrir mannaða leiðangra framtíðarinnar til Mars sem munu krefjast þess að hægt sé að vinna vatn.
Fleiri könnunarför hafa séð dökkar rákir af þessu tagi en vísindamenn hafa verið varir um sig fram að þessu að fullyrða að um fljótandi vatn væri að ræða. Þeir hafa kallað rákirnar „síendurteknar hlíðarásir“.
Litrófsrannsóknir með einu mælitækja MRO greina saltvatn í hlíðunum þegar dökku rákirnar eru sýnilegar en ekki áður en þær birtast. Rákirnar birtast aðeins þegar hitastigið við yfirborðið fer yfir -23°C. Vatnið getur runnið við svo lágt hitastig vegna saltanna sem eru leyst upp í því og lækka frostmark þess.
Liquid water flows on present-day Mars! Researchers using our Mars Reconnaissance Orbiter detected signatures of...
Posted by NASA - National Aeronautics and Space Administration on Monday, 28 September 2015