Nasa gerði of mikið úr uppgötvuninni

Nasa gerði aðeins of mikið úr þeirri uppgötvun sem kynnt var í gær, þótt vissulega sé um merkilega uppgötvun að ræða. Þetta segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, en hann hefur undanfarin ár fylgst vel með því sem fram hefur komið í tengslum við vatn og rauðu reikistjörnuna Mars.

Snýst ekki um líf á Mars

Vís­inda­menn NASA sögðust í gær hafa fundið vís­bend­ing­ar um að vatn fljóti niður hlíðar gljúfra og gíga á yf­ir­borði Mars yfir sum­ar­mánuðina þar. Þeir segja að upp­götv­un­in auki mögu­leik­ana á því að reikistjarn­an gæti hýst ein­hverja teg­und af lífi. Upp­spretta vatns­ins er þó enn sem komið er óþekkt.

Sævar segir að málið snúist ekki um líf á plánetunni, eins og margir hafi viljað slengja fram eftir framsetningu Nasa, heldur sé þetta saltvatn sem renni niður brattar brekkur á plánetunni, svokallaðar síendurteknar hliðarrákir.

Staðfesting á fyrri uppgötvun

Fyrsta skiptið sem menn urðu varið við vatn á Mars var árið 2008 þegar Pheonix-geimfarið lenti norðan heimskautabaugs á Mars. Átti þá að sannreyna fyrri uppgötvun um að vetni væri í efstu jarðlögum plánetunnar. Sævar segir að strax og Pheonix hafi lent hafi dropi sést  myndast við fót geimfarsins.

Árið 2011 hafi svo HiRISE-myndavélarinnar í Mars Reconnaissance Orbite-könnunarfarinu fundið merki um síendurteknar hlíðarrásir og tilkynningin í dag hafi í raun verið staðfesting á þeim fundi.

Nasa fær smá skömm í hattinn

Segir Sævar að Nasa fái smá skömm í hattinn fyrir að búa til svona mikla eftirvæntingu fyrir þessari tilkynningu og nota stór lýsingaorð til að segja frá því sem hafði uppgötvast.

Þrátt fyrir að Sævar telji þetta heldur stórar yfirlýsingar hjá Nasa segir hann að núna viti menn allavega um heppilega staði til að sækja vatn verði farið til plánetunnar.  Segir hann að í raun sé bara hægt að grafa á vatnið, tappa af og sía það svo. Þannig megi með nokkuð einföldum búnaði gera drykkjarhæft vatn, en það leysir mjög stórt vandamál sem menn stóðu fyrir þegar hugsað var um mannaðar ferðir til Mars.

Hann segir að nú viti menn að um gífurlega mikið vatn sé að ræða á plánetunni. Það sjáist t.d. á gígum þar sem megi greina ís á botninum. Bæði sé ís að finna á pólunum sem og víða á reikistjörnunni. Þá ýti þetta undir möguleikann á að rækta jurtir ef ákveðið verði að fara mannaða ferð til Mars.

Of snemmt að spá fyrir um líf á Mars

Aðspurður hvort hann telji þetta ýta undir möguleikann á lífi á Mars segir Sævar að þetta opni vissulega á hugmyndir manna um að líf gæti þrifist þar sem vatn seytlar út. Það sé væntanlega ákjósanlegasti staðurinn fyrir líf á reikistjörnunni. Hann segir samt allt of snemmt að segja neitt til um það.

Þegar horft er á nýju myndirnar sem Nasa sendi frá sér í dag er ekki hægt annað en að sjá líkindin við hálendi Íslands. Sævar segir það ekki skrítið, enda sé Ísland ein besta hliðstæða sem finnist fyrir Mars hér á jörð. Þannig hafi allur hópurinn sem kom að þessari rannsókn sem tilkynnt var í dag komið til landsins fyrr á þessu ári til að funda. Þá sé hér á landi mikið eldfjallagrjót eða storkuberg og er fullt af basalti sem Sævar segir að minni um margt á Mars.

Rákirnar, sem birtast í bröttum hlíðum yfir sumarmánuðina á Mars, …
Rákirnar, sem birtast í bröttum hlíðum yfir sumarmánuðina á Mars, eru sumar allt að hundrað metra langar. AFP
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. mbl.is/Golli
Dökkar rákir í hlíðum Horowitz-gígsins á Mars eru sagðar myndaðar …
Dökkar rákir í hlíðum Horowitz-gígsins á Mars eru sagðar myndaðar af rennandi saltvatni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert