Blár himinn á Plútó

Bláleitt mistrið sem liggur yfir Plútó eins og það kom …
Bláleitt mistrið sem liggur yfir Plútó eins og það kom fyrir sjónir New Horizons eftir að farið hafði flogið fram hjá dvergreikistjörnunni í júlí. AFP

Dvergreikistjarnan Plútó er hjúpuð þunnu mistri köfnunarefnis og metans. Fyrstu litmyndir geimfarsins New Horizons af lofthjúpnum sýna að hann er heiðblár eins og á jörðinni. Liturinn gefur vísindamönnum betri hugmynd um efnasamsetningu mistursins.

Eftir að New Horizons flaug fram hjá Plútó 14. júlí sáu myndavélar geimfarsins næturhlið hnattarins en um leið glóandi mistrið sem umlykur hann sem geislar sólar lýstu upp. Myndirnar sem bárust til jarðar í síðustu viku sýna að mistrið er bláleitt.

„Hver hefði búist við bláum himni í Kuiper-beltinu? Þetta er undurfagurt,“ sagði Alan Stern, aðalvísindamaður New Horizons-leiðangursins, um nýju myndirnar í gær.

Agnirnar í mistrinu eru að líkindum gráar eða rauðar en það hvernig þær dreifa bláu ljósi hefur vakið athygli vísindamanna, að því er segir í frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

„Þessi áberandi blái tónn gefur okkur upplýsingar um stærð og efnasamsetningu misturagnanna. Blár himinn kemur oft af örsmáum ögnum sem dreifa sólarljósi. Á jörðinni eru þessar agnir örsmáar köfnunarefnisagnir. Á Plútó virðast þær vera stærri en samt tiltölulega smáar sótkenndar agnir sem við köllum þólín,“ sagði Carly Howett, einn vísindamanna New Horizons.

Talið er að þólínið myndist í efstu lögum mistursins þegar útfjólublátt ljós frá sólinni brýtur upp og jónar köfnunarefnis- og metansameindir. Það gerir þeim kleift að mynda sífellt flóknari jónaðar eindir. Þegar þær sameinast aftur mynda þær stærri sameindir sem vaxa áfram þar til að þær mynda litlar agnir. Óstöðugar gastegundir þéttast og þekja yfirborð agnanna á meðan þær falla aftur niður úr lofthjúpnum til yfirborðsins þar sem þær leggja sitt til rauða litarins sem einkennir dvergreikistjörnuna.

Frétt NASA af bláu mistrinu á Plútó

Sólsetrið á Plútó aðeins fimmtán mínútum eftir að New Horizons …
Sólsetrið á Plútó aðeins fimmtán mínútum eftir að New Horizons flaug fram hjá. Greina má þunnan lofthjúpiðð eða mistrið yfir hnettinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka