Blár himinn á Plútó

Bláleitt mistrið sem liggur yfir Plútó eins og það kom …
Bláleitt mistrið sem liggur yfir Plútó eins og það kom fyrir sjónir New Horizons eftir að farið hafði flogið fram hjá dvergreikistjörnunni í júlí. AFP

Dverg­reikistjarn­an Plútó er hjúpuð þunnu mistri köfn­un­ar­efn­is og met­ans. Fyrstu lit­mynd­ir geim­fars­ins New Horizons af loft­hjúpn­um sýna að hann er heiðblár eins og á jörðinni. Lit­ur­inn gef­ur vís­inda­mönn­um betri hug­mynd um efna­sam­setn­ingu mist­urs­ins.

Eft­ir að New Horizons flaug fram hjá Plútó 14. júlí sáu mynda­vél­ar geim­fars­ins næt­ur­hlið hnatt­ar­ins en um leið gló­andi mistrið sem um­lyk­ur hann sem geisl­ar sól­ar lýstu upp. Mynd­irn­ar sem bár­ust til jarðar í síðustu viku sýna að mistrið er blá­leitt.

„Hver hefði bú­ist við blá­um himni í Kuiper-belt­inu? Þetta er und­urfag­urt,“ sagði Alan Stern, aðal­vís­indamaður New Horizons-leiðang­urs­ins, um nýju mynd­irn­ar í gær.

Agn­irn­ar í mistr­inu eru að lík­ind­um grá­ar eða rauðar en það hvernig þær dreifa bláu ljósi hef­ur vakið at­hygli vís­inda­manna, að því er seg­ir í frétt á vef banda­rísku geim­vís­inda­stofn­un­ar­inn­ar NASA.

„Þessi áber­andi blái tónn gef­ur okk­ur upp­lýs­ing­ar um stærð og efna­sam­setn­ingu misturagn­anna. Blár him­inn kem­ur oft af ör­smá­um ögn­um sem dreifa sól­ar­ljósi. Á jörðinni eru þess­ar agn­ir ör­smá­ar köfn­un­ar­efnisagn­ir. Á Plútó virðast þær vera stærri en samt til­tölu­lega smá­ar sót­kennd­ar agn­ir sem við köll­um þólín,“ sagði Car­ly Howett, einn vís­inda­manna New Horizons.

Talið er að þólínið mynd­ist í efstu lög­um mist­urs­ins þegar út­fjólu­blátt ljós frá sól­inni brýt­ur upp og jón­ar köfn­un­ar­efn­is- og met­ansam­eind­ir. Það ger­ir þeim kleift að mynda sí­fellt flókn­ari jónaðar eind­ir. Þegar þær sam­ein­ast aft­ur mynda þær stærri sam­eind­ir sem vaxa áfram þar til að þær mynda litl­ar agn­ir. Óstöðugar gas­teg­und­ir þétt­ast og þekja yf­ir­borð agn­anna á meðan þær falla aft­ur niður úr loft­hjúpn­um til yf­ir­borðsins þar sem þær leggja sitt til rauða litar­ins sem ein­kenn­ir dverg­reiki­stjörn­una.

Frétt NASA af bláu mistr­inu á Plútó

Sólsetrið á Plútó aðeins fimmtán mínútum eftir að New Horizons …
Sól­setrið á Plútó aðeins fimmtán mín­út­um eft­ir að New Horizons flaug fram hjá. Greina má þunn­an loft­hjúpiðð eða mistrið yfir hnett­in­um. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert