Skýrustu myndirnar í áratugi

Lituð mynd af yfirborði Plútós. Svarthvítri mynd í hárri upplausn …
Lituð mynd af yfirborði Plútós. Svarthvítri mynd í hárri upplausn hefur verið skeytt saman við litmynd í lægra upplausn til að skapa litmynd í hárri upplausn. NASA/JHUAPL/SwRI

Nú þegar hálft ár er liðið frá því að New Horizons flaug næst Plútó hefur geimfarið sent til baka skýrustu myndir af yfirborði dvergreikistjörnunnar sem menn munu sjá í að minnsta kosti nokkra áratugi. Myndirnar sýna glöggt merkilega fjölbreytni landslagsins sem kom vísindamönnum svo mjög á óvart.

Upplausn myndanna er um 77-85 metrar á díl og þannig má greina fyrirbæri á yfirborðinu sem eru innan við hálf húsaröð að lengd, að því er kemur fram á vefsíðu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Þær ná yfir um 80 kílómetra breiða rönd um 800 kílómetra niður frá sjóndeildarhringnum að Spútniksléttunni. Þær voru teknar þegar geimfarið fór sem næst Plútó 14. júlí.

Al-Idrisi-fjöllin eru úr vatnsís og taka við að Spútniksléttunni. Myndin, …
Al-Idrisi-fjöllin eru úr vatnsís og taka við að Spútniksléttunni. Myndin, sem sýnir um 80 kílómetra breitt svæði, var tekin þegar geimfarið var sem næst Plútó. Upplausn myndarinnar er 77-85 metrar á díl. NASA/JHUAPL/SwRI

Myndirnar eru hins vegar ekki aðeins augnayndi heldur hafa þær mikla þýðingu fyrir vísindamenn til þess að átta sig á jarðfræði Plútós. Alan Stern, yfirvísindamaður New Horizons-leiðangursins, bendir á að viðlíka myndir af Venusi og Mars hafi ekki verið fáanlegar fyrr en áratugum eftir að fyrst var flogið fram hjá reikistjörnunum.

„Vísindin sem við getum gert með þessum myndum eru einfaldlega ótrúleg,“ segir Stern.

Þéttriðið net holna á Tombough-svæði Plútós sem einnig er þekkt …
Þéttriðið net holna á Tombough-svæði Plútós sem einnig er þekkt sem hjartað. Talið er að holurnar séu tiltölulega ungar vegna þess hversu fáir loftsteinagígar eru á svæðinu. NASA/JHUAPL/SwRI

Líklegt er að myndirnar verði þær bestu sem menn eiga af Plútó í marga áratugi. Það tók New Horizons tíu ár að komast til dvergreikistjörnunnar. Engir frekari leiðangrar þangað eru áformaðir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka