Gríðarlegur fögnuður braust út í höfuðstöðvum SpaceX í nótt þegar fyrirtækinu tókst að lenda fyrsta þrepi Falcon-eldflaugar sinnar í fyrsta skipti. Afrekið markar tímamót fyrir SpaceX en markmiðið með að lenda eldflaugarþrepinu er að draga verulega úr kostnaðinum við geimskot.
Það var um kl. 1:40 að íslenskum tíma sem fyrsta þrep Falcon 9-eldflaugar SpaceX lenti heilu og höldnu á Canaveral-höfða, um níu mínútum eftir að flauginni var skotið á loft. Fyrirtækið hefur gert nokkrar tilraunir til þess að lenda hluta af eldflaugum á pramma á hafi úti en án árangurs. Þetta er í fyrsta skipti sem tilraun þess til að lenda eldflaugarþrepi tekst og jafnframt í fyrsta skipti sem það var reynt yfir landi.
The Falcon 9 first stage landing is confirmed. Second stage continuing nominally. pic.twitter.com/RX2QKSl0z7
— SpaceX (@SpaceX) December 22, 2015
Elon Musk, eigandi SpaceX, hefur unnið að því að draga úr kostnaði við geimskot með því að gera fyrsta þrep Falcon-eldflaugarinnar endurnýtanlegt. Fram að þessu hafa fyrstu þrep eldflauga brunnið upp í lofthjúpnum eftir að þau eru skilin frá efri þrepum skömmu eftir geimskot. Til þess að endurnýta þau þarf að vera hægt að lenda þeim örugglega.
Farmur eldflaugarinnar var ellefu gervitungl fyrirtækisins ORBCOMM og tókst að koma þeim á braut um jörðu.
Fyrirtækinu Blue Origin tókst að lenda hluta af eldflaug sem það sendi rúma hundrað kílómetra upp frá yfirborði jarðar á landi í síðasta mánuði. Lending SpaceX á fyrsta þrepi eldflaugar sinnar í nótt er hins vegar fyrsta skiptið sem mönnum tekst að lenda hluta af eldflaug sem notuð er til að komast á braut um jörðina.
Yay @SpaceX !!! pic.twitter.com/JArj0m6FQm
— Emily Lakdawalla (@elakdawalla) December 22, 2015