Bætist við lotukerfið

Kosuke Morita, forsvarsmaður japanska hópsins, bendir sigri hrósandi á frumefni …
Kosuke Morita, forsvarsmaður japanska hópsins, bendir sigri hrósandi á frumefni númer 113 í lotukerfinu. AFP

Fjórum nýjum frumefnum hefur formlega verið bætt við lotukerfið. Frumefnin voru öll búin til af mönnum og fylla loks sjöundu röð kerfisins. Þeim hefur enn ekki verið gefin nöfn en hópar vísindamanna í Japan, Rússlandi og Bandaríkjunum sem uppgötvuðu þau fá heiðurinn af því að nefna þau.

Alþjóðasamband efnafræðinga staðfesti uppgötvun frumefnanna fjögurra 30. desember. Viðurkenndi það að hópur rússneskra og bandarískra vísindamanna við Sameinuðu kjarnorkurannsóknastofnunina í Dubna og Lawrence Livermore-rannsóknastofuna í Kaliforníu hefði fært nægileg rök fyrir því að þeim verði eignuð uppgötvun frumefna númer 115, 117 og 118. Vísindamenn frá Riken-stofnuninni í Japan fá heiðurinn af uppgötvun frumefnis 113 en Rússarnir og Bandaríkjamennirnir höfðu einnig gert tilkall til þess.

Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2011 sem frumefnum er bætt við lotukerfið en þá voru efni númer 114 og 116 tekin í hópinn.

Hóparnir sem uppgötvuðu nýju frumefnin fjögur munu á næstu mánuðum finna nöfn á þau. Hægt er að nefna þau eftir hugtökum úr goðafræði, steinefnum, stöðum, landi, eiginleika eða vísindamanni.

Frumefnin voru búin til með því að láta léttari frumeindakjarna rekast saman og fylgjast með hrörnun þungu geislavirku efnanna sem verða til. Eins og önnur þung frumefni í neðri helmingi lotukerfisins eru nýju frumefnin fjögur aðeins til í sekúndubrot áður en þau hrörna í önnur frumefni.

„Fyrir vísindamenn þá er þetta meira virði en að vinna gull á Ólympíuleikunum,“ sagði Ryoji Noyori, fyrrverandi forseti Riken-stofnunarinnar japönsku og Nóbelsverðlaunahafi í efnafræði.

Frétt um nýju frumefnin á vef The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert