Stjórnendur könnunarfarins Philae sem lenti á halastjörnu fyrir rúmu ári ætla að gera eina síðustu tilraun til að ná sambandi við farið um helgina áður en aðstæður á halastjörnunni gera endanlega út um það. Philae hefur verið þögul sem gröfin frá því í júlí.
Halastjarnan 67P/Churyumov-Gerasimenko fjarlægist nú sólina óðfluga og fellur hitastigið við yfirborð hennar hratt. Stjórnendur Philae hjá þýsku geimstofnuninni DLR áætla að of kalt verði fyrir geimfarið fyrir lok janúar. Þá verður halastjarna um 300 milljón kílólmetra frá sólinni og hitastigið um -51°C, samkvæmt frétt á vef evrópsku geimstofnunarinnar ESA.
Áður en Philae geispar endanlega golunni ætla stjórnendurnir að gera tilraun til að ná sambandi við hana. Á sunnudaginn hyggjast þeir senda lendingarfarinu skipun um að kveikja á svonefndu skriðhjóli (e. momentum wheel) sem tryggði að geimfarið héldist stöðugt þegar það sveif niður á yfirborð halastjörnunnar frá móðurfarinu Rosettu 12. nóvember árið 2014.
„Tíminn er að renna út þannig að við viljum leita allra leiða,“ segir Stephan Ulamec, yfirmaður Philae-teymisins hjá DLR.
Ef Philae meðtekur skipunina vonast menn til þess að það geti hreyft farið til en í versta falli að aðgerðin geti hreinsað ryk af sólarsellum þess þannig að Philae fái meiri orku. Samband rofnaði við lendingarfarið þremur dögum eftir lendinguna þegar rafhlöður þess kláruðust. Philae hafði lent upp við klettavegg sem skyggði á sólarsellurnar sem áttu að framlengja leiðangurinn.
Vísindamennirnir eru þó ekki alltof vongóðir um að tilraunin beri árangur. Ekkert hefur heyrst í Philae frá 9. júlí þegar halastjarnan var nær sólinni og meira sólarljós lenti á sólarsellunum.
„Það er örlítil smuga. Við viljum reyna allt sem hægt er,“ segir Cinzia Fantinati frá DLR.