Stjórnendur Philae, geimfarsins sem lenti á halastjörnu fyrir rúmu ári, eru svo gott sem úrkula vonar um að samband náist við farið aftur. Lokatilraun var gerð til að senda Philae skipanir um helgina en ekkert bendir til þess að þær hafi komist áleiðis. Reynt verður að senda fleiri skipanir en allar líkur eru á að Philae sofi nú svefninum langa.
Tilraun var gerð til að láta lendingarfarið kveikja á sveifluhjóli í gærkvöldi. Sú aðgerð hefði mögulega getað fært geimfarið úr stað þannig að meira sólarljós félli á sólarsellurnar. Ekkert svar hefur hins vegar borist frá Philae.
„Við heyrðum ekkert,“ segir Stephan Ulamec, yfirmaður Philae-teymisins hjá þýsku geimstofnuninni DLR, við New Scientist.
Í besta falli gæti Philae hafa meðtekið skipunina en ekki getað svarað vegna bilunar í sendibúnaði geimfarsins. Líklegra er þó talið að það hafi ekki fengið skipunina. Nokkrar skipanir verða sendar til viðbótar en ólíklegt er að það beri árangur.
„Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann og möguleikarnir minnka með hverjum deginum eftir því sem við færumst fjær og fjær sólinni. Á einhverjum tímapunkti verðum við að sætta okkur við að við fáum ekki boð frá Philae lengur,“ segir Ulamec.
Philae skilaði góðu verki þegar það lenti á yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko í nóvember árið 2014. Farið lagðist í dvala eftir þrjá daga þegar rafhlöður þess voru á þrotum en staðsetning þess á halastjörnunni þýddi að sólarsellurnar fengu ekki nægilegt sólarljós til að framlengja leiðangurinn.
Geimfarið sendi skyndilega boð frá sér í sumar áður en samband glataðist aftur. Það sem veldur vísindamönnunum vonbrigðum er að fleiri gögn séu í minnisbanka geimfarsins en tókst að senda til jarðar. Þau gögn verða nú glötuð að eilífu.
Móðufarinu Rosettu verður flogið niður á yfirborð halastjörnunnar þegar leiðangri þess lýkur í september. Þá gætu náðst myndir af Philae þar sem farið hvílir. Þær myndir gætu hjálpað vísindamönnunum að túlka athuganirnar sem það sendi til jarðar í nóvember í hittifyrra.