Gera aðra tilraun til að lenda eldflaug

Samsett mynd af geimskoti og lendingu Falcon 9-eldflaugarinnar aðfaranótt 22. …
Samsett mynd af geimskoti og lendingu Falcon 9-eldflaugarinnar aðfaranótt 22. desember. AFP

Aðeins er tæpur mánuður síðan SpaceX, geimferðafyrirtæki Elons Musk, tókst að lenda eldflaugarþrepi í fyrsta skipti. Á morgun ætlar fyrirtækið að gera aðra tilraun til lendingar en að þessu sinni á pramma á hafi úti. SpaceX hefur jafnframt birt nýtt myndskeið af lendingunni í desember.

Falcon 9-eldflaug SpaceX verður skotið á loft frá Vandenberg-herflugvellinum í Kaliforníu á morgun en farmurinn er Jason-3-hafrannsóknagervitunglið sem hún á að koma á braut um jörðu. Lendingin aðfaranótt 22. desember var á þurru landi á Canaveral-höfða í Flórída en nú er ætlunin að lenda 1. þrepi eldflaugarinnar á pramma úti á sjó.

SpaceX hefur gert þrjár tilraunir til að lenda eldflaugarþrepi á slíkum pramma. Tvær þeirra mistókust en þriðja eldflaugin sprakk í loft upp aðeins þremur mínútum eftir að henni var skotið á loft áleiðis til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Ástæðan fyrir því að lendingin á morgun á að eiga sér staða á pramma er sú að fyrirtækið fékk ekki tilskilin leyfi fyrir lendingu á landi í tæka tíð fyrir geimskotið, að sögn Wired. Geimskotið er áætlað kl. 18:42 að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með því í beinni útsendingu á vef NASA.

Nýtt myndband sem sýnir geimskot Falcon 9-eldflaugarinnar í desember með nýjum myndum af lendingu 1. þrepsins var birt á Youtube-rás SpaceX fyrr í vikunni. Þar má glöggt sjá mjúka lendinguna en hún gefur Musk og félögum von um að hægt verði að draga verulega úr kostnaði við geimskot í framtíðinni.

Fyrri frétt mbl.is: Velkomin aftur, elskan!

Jason-3-gervitunglið sem Falcon 9-eldflaug SpaceX á að koma á braut …
Jason-3-gervitunglið sem Falcon 9-eldflaug SpaceX á að koma á braut um jörðu á morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert