Lendingin misheppnaðist

Töluverð þoka var yfir skotpallinum þegar Falcon 9-eldflauginni var skotið …
Töluverð þoka var yfir skotpallinum þegar Falcon 9-eldflauginni var skotið á loft í Kaliforníu í dag. AFP

Eldflaug SpaceX kom Jason-3-gervitunglinu á braut um jörðu nú fyrir stundu en svo virðist sem að tilraunalending 1. þreps eldflaugarinnar á pramma á hafi úti hafi mistekist. Á Twitter-síðu SpaceX kemur fram að þrepið hafi lent á prammanum en lendingin hafi verið hörð og einn lendingarfótanna hafi brotnað.

Falcon 9-eldflauginni var skotið á loft frá Kaliforníu um kl. 18:45 að íslenskum tíma. Staðfest er að farminum, Jason-3-hafrannsóknagervitunglinu, hafi verið komið á braut um jörðu. Ætlun SpaceX var einnig að lenda 1. þrepi eldflaugarinnar líkt og því tókst að gera í fyrsta skipti í síðasta mánuði.

Lendingartilraunin var gerð á pramma úti í Kyrrahafinu að þessu sinni þar sem tilskilin leyfi fyrir lendingu á landi fengust ekki í tæka tíð. Nokkuð slæmt var í sjóinn en ekki fylgir sögunni hvort að það hafi haft áhrif á tilraunina. SpaceX sendi beint út frá tilrauninni en gervihnattasamband við prammanna glataðist skömmu áður en eldflaugarþrepið átti að lenda.

Í færslu á Twitter segir SpaceX að eldflaugarþrepið hafi hitt á prammann en lendingin hafi verið of hörð þannig að einn lendingarfótanna brotnuðu. Ekki hefur verið gefið út hvort að það hafi orðið til þess að eldflaugin hafi sprungið eins og gerðist síðast þegar reynt var að lenda á pramma eða hvort hægt sé að endurnýta hana. 

Uppfært kl. 20:47 Elon Musk, eigandi SpaceX, skrifar á Twitter að það sé mun erfiðara að lenda á pramma en á landi enda skotmarkið mun minna. Það hafi hins vegar ekki verið það sem kom í veg fyrir að lendingin heppnaðist. Hraði eldflaugarinnar hafi verið ágætur en einn lendingarfóturinn hafi ekki skorðast fastur og því hafi eldflaugarþrepið oltið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert