Elon Musk, eigandi SpaceX, er bjartsýnn á áframhaldandi tilraunir fyrirtækisins til þess að lenda eldflaug á pramma á hafi úti eftir geimskot þrátt fyrir að tilraun til þess um helgina hafi mistekist. Myndband frá prammanum sýnir að eldflaugin lenti en valt á hliðina og sprakk þegar lendingarfótur gaf sig.
Falcon 9-eldflaug SpaceX skaut Jason-3-gervitunglinu á braut um jörðu á sunnudag. Geimskotið var jafnframt notað sem tilraun til að lenda 1. þrepi eldflaugarinnar aftur á jörðu niðri. Markmiðið með því er að draga verulega úr kostnaði við geimskot en í síðasta mánuði tókst SpaceX að lenda eldflaug á föstu landi.
Musk er hins vegar ekki af baki dottinn og segist bjartsýnn á áframhaldandi tilraunir til að lenda á hafi úti. Í röð færslna á Twitter. Þar útskýrir hann að lendingar á hafi séu ekki nauðsynlegar upp á sveigjanleika eða til að halda eldsneytiskostnaði niðri heldur sé stundum ekki mögulegt að lenda aftur á skotstaðnum. Þá sé hægt að skilja 1. þrep eldflaugarinnar frá seinni stigunum á meiri hraða þegar ætlunin er að lenda því úti á hafi.
Ástæðan fyrir því að lendingin á sunnudag misheppnaðist var sú að einn lendingarfóta eldflaugarinnar náði ekki að skorða sig fasta. Talið er að orsök þess megi rekja til ísmyndunar á eldflauginni vegna mikillar þoku sem lá yfir skotstaðnum í Kaliforníu.
„Mín besta ágiskun fyrir 2016: ~70% heppnaðar lendingar (þannig að það eru nokkur RUD eftir), síðan vonandi batnar það í ~90% árið 2017,“ skrifar Musk en RUD eru skrauthvörf sem standa fyrir „skyndileg sundurtekt utan áætlunar“ [e. Rapid Unscheduled Disassembly]. Með öðrum orðum: eldflaugin sprakk í loft upp.
My best guess for 2016: ~70% landing success rate (so still a few more RUDs to go), then hopefully improving to ~90% in 2017
— Elon Musk (@elonmusk) January 19, 2016