Ef sannanir fyrir tilvist níundu reikistjörnunnar finnast mun það gefa okkur skýrari mynd af því hvernig sólkerfið okkar varð til og hvernig það er uppbyggt.
Þetta segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins.
Stjörnufræðingar við Caltech-háskólann í Kaliforníu hafa fundið sterk sönnunargögn fyrir tilvist stórrar en óséðrar reikistjörnu langt utan brautar Neptúnusar og Plútós.
Frétt mbl.is: Níunda reikistjarnan fundin?
„Menn hafa verið að pæla í þessu í örfá ár, eða allt frá því að þessir fjarlægustu hnettir í sólkerfinu fundust sem kallast útstirni. Það eru litlir íshnettir á braut um sólina, yst í sólkerfinu,“ greinir Sævar Helgi frá.
„Menn tóku eftir því að sumir þessarra hnatta eru býsna langt frá sólinni en brautir þeirra eru rosalega svipaðar. Þær halla svipað og eru álíka langt frá sólinni, eins og hópur af fuglum sem hópast á sama stað. Það er mjög skrítið af hverju við sjáum þá enga hnetti hinum megin við,“ segir hann.
„Þá fóru menn að geta sér til þess að ósýnilegur, stór hnöttur hefði áhrif á brautir hnattanna, sem smalaði þeim nánast saman á þennan stað í sólkerfinu. Þegar menn fóru að reikna út hvað hnötturinn þarf að vera stór kemur í ljós að hann þarf að vera tvisvar til fjórum sinnum breiðari en jörðin og tíu sinnum efnismeiri.“
Spurður hvort eitthvað annað en þessi stóri hnöttur gæti haft áhrif á brautir hnattanna segir Sævar Helgi að stjarna sem fór framhjá sólkerfinu fyrir löngu hefði mögulega getað haft þau áhrif. Menn virðast aftur á móti vera búnir að útiloka það núna.
Einnig gæti það verið tilviljun að hnettirnir raðast upp eins og þeir gera. Þó eru líkurnar á því aðeins 0,007 prósent. „Eins og staðan er í dag er þessi nýjasta tilgáta líklegasta skýringin en það gæti vel verið að á næstu árum fyndust hnettir sem skytu þessa kenningu í kafið. Það kemur í ljós með frekari rannsóknum og fleiri upplýsingum.“
Að sögn Sævars eru mennirnir sem fundu þessa hugsanlegu 9. reikistjörnu engir aukvisar í fræðunum. „Maðurinn sem er aðalsprautan á bak við þessa tilgátu fann hnöttinn Eris árið 2005, sem leiddi til þess að Plútó var felldur af stalli. Það er smá kaldhæðnislegt að maðurinn sem fækkaði reikistjörnunum úr níu í átta skuli hugsanlega vera að geta sér til um að það sé níunda reikistjarnan þarna þrátt fyrir allt en bara ennþá utar í sólkerfinu,“ segir hann.
Ef það reynist rétt telur Sævar að upplýsingarnar myndu kenna okkur ýmislegt fleira um sólkerfið okkar. Um það hvernig það varð til og hvernig aðstæður voru í fortíðinni. „Þetta yrði býsna merkileg uppgötvun og hún myndi gefa okkur skýrari mynd af því hvernig sólkerfið okkar er uppbyggt.“
Vísindamenn á Hawaii leita að nýju reikistjörninni með hjálp eins stærsta sjónauka jarðarinnar og vonast þeir til að finna hana innan fimm ára. Að sögn Sævars taka þeir myndir af himninum með nokkurra daga milli bili og leita eftir einhverju sem hreyfist langt í burtu. Ef eitthvað hreyfist er hægt að reikna út hversu langt í burtu það er og út frá birtunni verður hægt að reikna út hversu stór hnötturinn er.