30 ár frá Challenger-slysinu

Reykjastrókarnir sem sprengingin í eldsneytistönkum Challenger skildi eftir sig morguninn …
Reykjastrókarnir sem sprengingin í eldsneytistönkum Challenger skildi eftir sig morguninn örlagaríka fyrir 30 árum. Af Wikipedia

Aðeins 73 sekúndur voru liðnar frá því að bandaríska geimskutlan Challenger þaut á loft frá Canaveral-höfða á Flórída þegar hún hvarf í gríðarlegri sprengingu fyrir augum dolfallinna áhorfenda. Þrjátíu ár eru í dag liðin frá harmleiknum sem batt enda á líf geimfaranna sjö um borð.

Þúsundir skólabarna sátu fyrir framan sjónvarpstæki í skólastofum um gjörvöll Bandaríkin að morgni þriðjudagsins 28. janúar árið 1986. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hafði komið því í kring að þau gætu fylgst með geimskoti Challenger en einn sjömenninganna um borð var kennarinn Christa McAuliffe sem átti að verða fyrsti almenni borgarinn til að fara út í geiminn.

Spenna og eftirvænting barnanna breyttist þó fljótt í hrylling þegar geimskutlan rifnaði í sundur í ógurlegu eldhafi í beinni útsendingu. Auk hinnar 37 ára gömlu McAuliffe fórust flugstjórinn Francis R. Scobee, flugmaðurinn Michael J. Smith, geimfararnir Ellison S. Onizuka, Judith A. Resnik og Ronald E. McNair og leiðangurssérfræðingurinn Gregory B. Jarvis. 

Vildu helst ræða leðurkápu skýrslunnar

Slysið var reiðarslag fyrir geimskutluáætlun Bandaríkjamanna og lagðist hún í dvala í tæp þrjú ár á meðan orsaka þess var leitað.  Þetta var í fyrsta skipti sem bandarískir geimfarar höfðu látið lífið í geimflugi og ímynd NASA beið mikla hnekki í kjölfarið.

Ronald Reagan, þáverandi forseti, kom á fót sérstakri rannsóknarnefnd sem nefnd var Rogers-nefndin í höfuðið á formanni hennar, William P. Rogers, fyrrverandi utanríkisráðherra og ríkissaksóknara Bandaríkjanna. Neil Armstrong, fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið, var á meðal þeirra sem átti sæti í nefndinni.

Störf nefndarinnar gengu þó ekki átakalaust fyrir sig. Eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Richard Feynman var ekki sáttur við aðra nefndarmenn sem hann sagði helst hafa áhyggjur af því inn í hvernig leður skýrsla þeirra ætti að vera bundin þegar þeir skiluðu henni til forsetans.

Á meðan aðrir nefndarmenn töluðu við yfirstjórnendur NASA aflaði Feynman sér upplýsinga hjá verkfræðingum á plani. Hann komst að raun um að miklir samskiptaörðugleikar væru á milli stjórnenda og verkfræðinga og að þeir fyrrnefndu misskildu jafnvel herfilega lykilhugtök sem vörðuðu öryggi geimskutlunnar sem þeir töldu margfalt öruggari en verkfræðingarnir.

Eftirgrennslan Feynman varð einnig til þess að hann komst á spor þess sem raunverulega grandaði Challenger.

Áhöfn síðasta flugs Challenger. Efri röð (frá vinstri): Ellison S. …
Áhöfn síðasta flugs Challenger. Efri röð (frá vinstri): Ellison S. Onizuka, Sharon Christa McAuliffe, Greg Jarvis og Judy Resnik. Neðri röð (frá vinstri): Michael J. Smith, Dick Scobee og Ron McNair.

Afhjúpaði gallann með ísköldu vatnsglasi

Það reyndist vera gallaður gúmmíhringur, svonefndur O-hringur, sem hélt saman samskeytum eldflauga geimskutlunnar við eldsneytistankana sem gaf sig með afleiðingunum hræðilegu. Eins og Feynman sýndi eftirminnilega fram á með því að dýfa slíkum hring í ískalt vatn í yfirheyrslum yfir stjórnendum NASA stífnuðu þeir í kulda og gátu því rofnað.

Morguninn örlagaríka sem Challenger var skotið á loft var óvenjukaldur í Flórída. Raunar hafði geimskotinu verið ítrekað frestað vegna veðurs. Um nóttina hafði verið átta stig frost og um morguninn var hitinn aðeins í kringum 2°C. Fréttamenn sem ætluðu að fylgjast með geimskotinu töldu næsta víst að geimskotinu yrði frestað áfram. 

Hreyflar Challenger voru hins vegar ræstir kl. 11:38 að staðartíma. Sjötíu og þremur sekúndum síðar rifnaði skutlan í sundur.

Þegar O-hringurinn gaf sig streymdi funheitt gas úr eldflauginni sem leiddi að lokum til sprengingar í eldsneytistanki og rifnaði geimskutlan í kjölfarið í sundur. Geimskutlan var á næstum því tvöföldum hljóðhraða þegar sprengingin varð í um fjórtán kílómetra hæð yfir jörðu. Hún ferðaðist svo hratt að hún hélt áfram upp í tuttugu kílómetra hæð áður en hún hrapaði aftur til jarðar.

Geimskutlan sjálf sprakk hins vegar aldrei og allar líkur eru á því að geimfararnir hafi lifað upphaflegu sprenginguna af. Áhafnarklefinn fannst ekki fyrr en í mars á botni Atlantshafsins austan við Flórída en lík geimfaranna voru svo illa farin að ekki var hægt að skera úr um dánarorsök þeirra. Margt bendir hins vegar til þess að í það minnsta einhverjir þeirra hafi verið lifandi þegar brak geimskutlunnar skall í hafið á 320 km/klst. Óvíst er hvort þeir hafi verið með meðvitund á þeim tímapunkti en öruggt er talið að þeir hafi látist samstundis við höggið.

Raunveruleikinn hafi forgang yfir almannatengsl

Niðurstaða Rogers-nefndarinnar var að lokum að gallinn í O-hringnum hafi verið orsök slyssins. Umfram það hafi stofnanamenning NASA og ákvarðanatökuferli haft mikið um það að segja að slysið hafi getað átt sér stað. Stjórnendur NASA hafi vitað af mögulegum galla í hringjunum í tæp tíu ár fyrir slysið en þeir hafi ekki brugðist við sem skyldi. Þeir, ásamt yfirmönnum verktakans sem hannaði hringina, hunsuðu einnig viðvaranir verkfræðinga um að það væri ekki öruggt að skjóta Challenger á loft í þeim kulda sem ríkti þennan dag.

Engar tilraunir höfðu heldur verið gerðar sem sýndu fram á að öruggt væri að skjóta geimskutlunni á loft við þær aðstæður og O-hringirnir höfðu ekki verið hannaðir með slíkan kulda í huga.

Það sem Feynman hafði orðið áskynja hjá NASA varðandi öryggi olli honum miklum áhyggjum og hótaði hann að fjarlægja nafn sitt úr skýrslunni ef hann fengi ekki að birta viðauka við hana með gagnrýni sinni á öryggismenninguna innan stofnunarinnar.

Í viðaukanum fór Feynman hörðum orðum um stjórnendur NASA sem hefðu fjarstæðukennt mat á áreiðanleika kerfa sinna og að það væri algerlega á skjön við mat þeirra eigin verkfræðinga.

„Til að tækni sé árangursrík verður raunveruleikinn að hafa forgang yfir almannatengsl því það er ekki hægt að gabba náttúruna,“ voru fleyg orð Feynman um misbresti stjórnenda NASA.

Svona var sagt frá Challenger-slysinu á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 29. …
Svona var sagt frá Challenger-slysinu á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 29. janúar árið 1986.

„Geimurinn kallar á okkur“

Í kjölfar slyssins gerði NASA ýmsar endurbætur á geimskutlunum og vinnubrögðum sínum og frekari hugmyndir um að senda óbreytta borgara út í geiminn voru slegnar út af borðinu í fleiri ár. Það var ekki fyrr en 29. september árið 1988 sem geimskutlurnar hófu sig til flugs aftur þegar Discovery var skotið á loft. Challenger-slysið var þó ekki síðasta áfallið því sjö geimfarar til viðbótar fórust þegar geimskutlan Columbia brotnaði í sundur þegar hún kom aftur niður í lofthjúp jarðar 1. febrúar árið 2003.

Geimskutluáætlunin leið svo undir lok þegar Atlantis lenti í hinsta sinn í júlí 2011. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn þurft að reiða sig á Rússa til að koma geimförum sínum út í geiminn en undanfarið hefur NASA unnið með SpaceX og Boeing við að þróa geimferjur til að flytja menn út í geim frá Bandaríkjunum að nýju.

„Áhafnir Challenger og Columbia verða ávallt hluti af áframhaldandi sögu. Þetta er saga þróunar ferðalags mannkynsins út í geiminn, út í hið óþekkta og að ystu mörkum þekkingar, uppgötvunar og möguleika. Þetta er saga vonar,“ sagði Charles Bolden, forstöðumaður NASA þegar safn til minningar um geimfarana var opnað í gestahúsi Kennedy-geimstöðvarinnar í Flórída í fyrra.

Í viðtali við Morgunblaðið árið 2013 tók James B. Garvin, yfirmaður vísindarannsókna hjá Goddard-geimrannsóknastöð NASA, í svipaðan streng en hann tók meðal annars þátt í að þjálfa McAuliffe fyrir geimferð hennar.

„Hún lést við að elta draum sinn. Þannig virkar landkönnun. Við misstum hugrakka geimfara og önnur könnunarför. Samt höldum við áfram því geimurinn er þarna og hann kallar á okkur,“ sagði Garvin.

Heimildir:

Vísindavefurinn

Space.com

CBS News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert