Gera tilraun með kjarnasamruna

Tæknin líkir í raun eftir aðstæðum í kjarna sólarinnar þar …
Tæknin líkir í raun eftir aðstæðum í kjarna sólarinnar þar sem kjarnasamruni á sér stað við gríðarlegan hita. Ljósmynd/NASA

Vísindamenn í Þýskalandi ætla að gera tilraun í dag með kjarnasamruna en sú tækni gæti séð mannkyninu fyrir hreinni og öruggri kjarnorku um ókomna tíð. Ólíkt hefðbundinni kjarnorku sem skilur eftir sig geislavirkan úrgang er kjarnasamruni nær algerlega hreint ferli.

Í tilrauninni sem verður gerð við Max Planck-stofnunina í Greifswald í Þýskalandi ætla vísindamenn að koma örlitlu magni af vetni fyrir í kjarnaofni og hita það þangað til það verður að ofurheitu gasi sem nefnist rafgas. Þannig vonast þeir til þess að fá kjarna vetnisfrumeindanna til þess að renna saman en við það losnar gríðarleg orka. Með þessu eru þeir í reynd að líkja eftir því ferli sem á sér stað í kjarna sólarinnar.

Áhugamenn um kjarnasamruna viðurkenna að tæknin sé áratugum frá því að verða nýtileg en takist mönnum að þróa hana geti hún leyst jarðefnaeldsneyti og hefðbundna kjarnorku af hólmi.

Gríðarlegan hita þarf til að koma kjarnasamruna af stað. Áætlað er að rafgasið í tilrauninni nái hundrað milljón gráðu hita.

„Þetta er afar hrein orkulind, sú hreinasta sem þú gætir mögulega vonast eftir. Við erum ekki að þessu fyrir okkur sjálf heldur fyrir börnin okkar og barnabörn,“ segir John Jelonnek, eðlisfræðingur við Tæknistofnunina í Karlsruhe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert