Philae endanlega kvatt

Eftirlíking listamanns af Philae könnunarfarinu á yfirborði halastjörnunnar.
Eftirlíking listamanns af Philae könnunarfarinu á yfirborði halastjörnunnar. AFP

Stjórn Rosetta verkefnis Evrópsku geimferðastofnunarinnar hefur endanlega gefið upp vonina á að ná aftur sambandi við Philae könnunarfarið sem lenti á Halastjörnu 67P í nóvember 2014.

Talið er farið sé þakið ryki og of kalt til þess að starfa. Lending farsins gekk ekki að óskum en það skoppaði í nokkur skipti á yfirborði halastjörnunnar áður en það lenti á óheppilegum stað, í skugga. Þó tókst í nokkur skipti að ná sambandi við farið og í sextíu klukkustundur sendi það gögn aftur til jarðar. Síðast náðist samband við farið á 9. júlí sl.

Rosetta geimfarið með Philae áfast, tölvuteiknuð mynd.
Rosetta geimfarið með Philae áfast, tölvuteiknuð mynd. AFP

„Því miður eru líkurnar á því að Philae nái aftur sambandi við teymið í stjórnstöð okkar nánast engar og við munum ekki senda neinar frekari skipanir,“ sagði Stephan Ulamec, verkefnisstjóri Þýsku geimferðastofnunarinnar.

Þannig lýkur þessum kafla í geimferðasögunni en Philae var fyrsta geimfarið sem menn hafa lent á halastjörnu.

Halastjarna 67P er nú á leið í kaldari hluta sporbaugs síns um sólu. Hitastigið á henni mun falla niður fyrir -180°c sem er langt fyrir neðan það hitastig sem farið var hannað til þess að þola.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert