Japanska geimvísindastofnunin skaut nýjum og öflugum röntgengeimsjónauka á loft í morgun sem ber nafnið Hitomi og útleggst á íslensku sem „Augasteinninn“. Sjónaukinn á meðal annars að rannsaka svarthol, vetrarbrautaþyrpingar og önnur fyrirbæri sem gefa frá sé röntgengeisla.
Sjónaukinn, sem upphaflega hét Astro-H, er afurð samstarfs japönsku geimvísindastofnunarinnar JAXA og Goddard-geimrannsóknastöðvar NASA. Hann er búinn umtalsvert öflugri mælitækjum en fyrri röntgengeimsjónaukar og búist er við því að athuganir hans geti leitt til byltingar í skilningi á ýmsum orkuríkum fyrirbærum í alheiminum.
Þannig getur Hitomi komið auga á röntgenuppsprettur sem eru tíu sinnum daufari en forveri hans, Suzaku, sem var í notkun frá 2005 til 2015 var fær um. Dæmi um slíkar uppsprettur eru nifteindastjörnur og vetrarbrautaþyrpingar en röntgengeislun stafar meðal annars frá sprengistjörnum og sterkum segul- og þyngdarsviðum.
Á Hitomi að geta varpað ljósi á þróun vetrarbrautaþyrpinga sem eru stærstu fyrirbæri í alheiminum, hegðun efnis í gríðarsterkum þyngdarsviðum, snúning svarthola, innri gerð nifteindastjarna og eðlisfræði efnisstróka eins og þeirra sem stafa frá pólum svarthola.
Frétt NASA af Hitomi-röntgengeimsjónaukanum