Almyrkvi verður á sólu yfir Indónesíu í næstu viku og ætlar Sævar Helgi Bragason og tveir félagar hans úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að verða vitni að sjónarspilinu. Hann varir aðeins í rúmar þrjár mínútur en Sævar segir ferðalagið samt algerlega þess virði.
Stjörnuskoðunarfélagið gat sér gott orð þegar það gaf öllum grunnskólabörnum á landinu gleraugu til að fylgjast með deildarmyrkvanum sem varð hér á landi í mars í fyrra. Þá stóðu Sævar Helgi og félagar í ströngu en nú ætla þeir að gefa sér tíma til að njóta myrkvans sjálfir frá upphafi til enda á afskekktum stað í Indónesíu.
Þeir Sævar Helgi, Hermann Hafsteinsson og Gísli Már Árnason úr Stjörnuskoðunarfélaginu hefja för sína á miðvikudagsmorgun. Eftir tvær millilendingar, eina í Amsterdam og aðra í Doha í Katar koma þeir til Jakarta. Þá bíður þeirra þriggja til fjögurra klukkustunda langt flug til Ternate-eyjar, svo klukkutíma bátsferð til Halmahera-eyjar og loks fimm klukkutíma bílferð til bæjarins Buli.
Sólmyrkvinn verður svo miðvikudaginn 9. mars.
Staðsetningin er afurð ítarlegrar undirbúningsvinnu Xavier Jubier sem Sævar Helgi og Gísli kynntust á stjörnuljósmyndunarnámskeiði í Kanaríeyjum í fyrra.
„Hann er einn mesti sólmyrkvabrjálæðingur sem ég veit um. Hann eltir alla sólmyrkva og hann er búinn að ferðast til Indónesíu síðustu tvö ár í leit að heppilegasta staðnum. Hann er búinn að finna þennan stað þar sem við höfum góðar líkur á að fá gott veður í þá átt sem myrkvinn stendur og sömuleiðis erum við nálægt miðlínunni þar sem myrkvinn er mestur og lengstur. Þannig fáum við þrjár mínútur og sautján sekúndur af almyrkva,“ segir Sævar Helgi sem er búinn að reikna út að hver sekúnda almyrkvans kosti þá félaga um fimm þúsund krónur.
Þrátt fyrir erfiðið og kostnaðinn segir Sævar Helgi að það verði vel þess virði. Í deildarmyrkvanum á Íslandi í fyrra skyggði tunglið á nærri því 98% af skífu sólar. Þessi tvö prósent sem upp á vantaði gera hins vegar gæfu muninn. Þá blasir við kolsvart tungl en utan um það má sjá kórónu sólarinnar og jafnvel sólgos.
„Það er sagt að þetta sé eitthvað það allra magnaðasta sem þú getur upplifað í náttúrunni. Fegurðin sé einstök og náttúran öll bregðist við á áberandi hátt þannig að dýralíf þagnar. Þetta á að vera einstök upplifun og við viljum bara fá að upplifa það eftir að hafa heillast gersamlega af myrkvanum í fyrra,“ segir Sævar Helgi.
Í farangrinum verða þremenningarnir með tvo sjónauka og fjórar myndavélar til að festa atburðinn á filmu. Sævar Helgi segir að ætlunin sé meðal annars að taka upp fræðslumynd um sólmyrkva sem getur nýst skólabörnum og birt verður á Stjörnufræðivefnum.
Hægt er að fylgjast með ferðalagi Sævars Helga og félaga á Stjörnufræðivefnum og ýmsum samfélagsmiðlum, þar á meðal Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins, Twitter-síðu hans og Snapchat-reikningnum „stjornufraedi“.
Íslendingar eru vanir að taka engu sem gefnu þegar kemur að veðrinu. Sævar Helgi hefur ekki of miklar áhyggjur af því að það muni setja strik í reikninginn þegar á hólminn verður komið.
„Þá bara verður rigning eða skýjað og það er ekkert sem við getum gert í því. Ef svo verður þá verðum við vissulega fyrir vonbrigðum en það kemur myrkvi eftir þennan. Að öðru leyti er myrkvinn bara bónus því maður veit aldrei hvernig veðrið verður. Fyrst og fremst er þetta leið til að ferðast á framandi stað sem maður kemur væntanlega aldrei til með að heimsækja aftur,“ segir Sævar Helgi.
Almyrkvi verður á sólu yfir Íslandi eftir tíu ár, 12. ágúst árið 2026. Ferðin nú, auk þriggja annarra sem Sævar Helgi segist vera að leggja drög að til að elta almyrkva á næstu árum, verður einnig öðrum þræði undirbúningur fyrir myrkvann sem verður hér. Hann segist hafa áhuga á að kynna sér hvernig aðrar þjóðir skipuleggja sig fyrir viðburð af þessu tagi og hversu margir elti hann.
Sævar Helgi telur að búast megi við þúsund ferðamanna til landsins þegar almyrkvinn gengur yfir og hann hitti á mesta ferðamannatímann. Besti staðurinn til að sjá almyrkvann verði væntanlega frá Látrabjargi og vestanverðu Snæfellsnesi. Spurning sé hvernig menn ætli sér að koma þúsundum manna fyrir á þessum svæðum.